Erlent

Táningur sagður hafa skipulagt hryðjuverk

Samúel Karl Ólason skrifar
Verði maðurinn sakfelldur gæti hann verið dæmdur í lífstíðarfangelsi.
Verði maðurinn sakfelldur gæti hann verið dæmdur í lífstíðarfangelsi. Vísir/AFP
Lögreglan í Ástralíu hefur handtekið 18 ára mann. Hann er grunaður um að hafa skipulagt hryðjuverk þar í landi. Til stendur að ákæra hann vegna málsins en einnig fyrir að hafa reynt að ferðast til Sýrlands og ganga til liðs við vígahóp. Verði maðurinn sakfelldur gæti hann verið dæmdur í lífstíðarfangelsi.

Lögreglan segir að táningurinn hafi reynt að útvega sér skotvopn, en talið er að hann hafi ekki átt vitorðsmenn. Ekki liggur fyrir hvert skotmark hans átti að vera. Þá segir lögreglan að skipulagning hans hafi verið komin langt á veg. Fylgst hafði verið með honum frá því í febrúar þegar hann reyndi að fara til Sýrlands.

Yfirvöld í Ástralíu hækkuðu viðbúnaðarstig vegna hryðjuverka þar í landi árið 2014. Síðan þá hafa fjölmargir verið handteknir í aðgerðum sem sagðar eru hafa komið í veg fyrir hryðjuverk. Nú síðast var 16 ára drengur handtekinn í apríl.

Yfirmaður lögreglunnar í New South Wales segir að þeir einstaklingar sem skipuleggi hryðjuverk í Ástralíu virðast verða yngri og yngri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×