Erlent

Sextíu og fimm látnir vegna eldinga á fjórum dögum

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Regntímabilið er að ganga í garð í Bangladess.
Regntímabilið er að ganga í garð í Bangladess. Nordicphotos/AFP
Mikil óveðurstíð er í Bangladess um þessar mundir en sextíu og fimm manns hafa orðið fyrir eldingu og látist á undanförnum fjórum dögum. Þrumuveður gengur nú yfir landið en slíkt er algengt í aðdraganda regntímabilsins.

Flestir þeirra látnu urðu fyrir eldingum í strjálbýlum hluta landsins í norðri. Flestir voru bændur eða byggingarverkamenn.

Þrjátíu og fjórir létust á fimmtudaginn og tuttugu og einn á föstudag en færri á laugardag og sunnudag. Er þetta óvenju mikill fjöldi á skömmum tíma en í fyrra urðu 274 manns eldingum að bráð í Bangladess.

Sérfræðingar telja að rýrnun skóga sökum skógarhöggs sé meginástæðan fyrir auknum fjölda dauðsfalla af völdum eldinga. Minna sé um hávaxin tré sem leiði eldingarnar í jörð.

Yfirvöld í Bangladess eru byrjuð að greiða fjölskyldum þeirra sem látast af völdum eldinga sérstakar skaðabætur. Upphæð bótanna nemur um þrjátíu og eitt þúsund íslenskum krónum.

Líkurnar á því að verða fyrir eldingu á lífsleiðinni eru sagðar vera einn á móti tólf þúsund og níutíu prósent þeirra sem verða fyrir eldingum lifa af, en margir bíða þó varanlega skaða af. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×