Erlent

Líkir markmiðum ESB við markmið nasistanna

Heimir Már Pétursson skrifar
Johnson er þingmaður Íhaldsflokksins og leiðtogi þeirra innan flokksins sem berjast fyrir úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu.
Johnson er þingmaður Íhaldsflokksins og leiðtogi þeirra innan flokksins sem berjast fyrir úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu. Vísir/AFP
Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóri Lundúna og sá sem margir telja að geti orðið næsti leiðtogi breska Íhaldsflokksins, hefur líkt markmiðum Evrópusambandsins við markmið þýskra nasista um að sameina Evrópu undir einu valdi.

Þetta segir hann í viðtali við breska blaðið The Telegraph. Johnson segir að bæði Napóleon og Hitler hafi mistekist þetta ætlunarverk en lætur þess ekki getið að í þeim tilvikum fór eitt ríki með blóðugu stríði gegn öðrum Evrópuríkjum en Evrópusambandið var stofnað sem vettvangur lýðræðisríkja í Evrópu til að koma í veg fyrir að slíkar hörmungar endurtækju sig.

Johnson er þingmaður Íhaldsflokksins og leiðtogi þeirra innan flokksins sem berjast fyrir úrsögn Bretlands úr sambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fer þar í landi eftir mánuð.

Yvette Cooper, þingmaður Verkamannaflokksins, sem er í liði þeirra sem vilja Bretland áfram í Evrópusambandinu, sakar Johnson um andstyggilegan leik með ummælum sínum. Það kemur hins vegar ekki á óvart að Nigel Farage, leiðtogi breska Sjálfstæðisflokksins, hefur tekið undir með Johnson.

Þeir íhaldsmenn og aðrir sem berjast fyrir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu hafa hins vegar ekkert viljað hafa saman að sælda við Farage, að ótta við að hann setji óþægilegan þjóðernisstimpil á málstaðinn.


Tengdar fréttir

Segja breskt hagkerfi vaxa meira utan ESB

Átta breskir hagfræðingar birtu skýrslu í gær þar sem þeir segja Evrópusambandið íþyngja bresku atvinnulífi. Þeir líkja sambandinu við garð með girðingu í formi tolla og reglugerða. Obama varar Breta aftur á móti við útgöngu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×