Menning

Leið Hannesar varð að leið inn í nýja tíma

Magnús Guðmundsson skrifar
Jón Kalman Stefánsson tók saman Ljóðaúrval Hannesar Sigfússonar og ritaði formála um þetta merka skáld sem var afabróðir hans. Fréttablaðið/Daníel
Jón Kalman Stefánsson tók saman Ljóðaúrval Hannesar Sigfússonar og ritaði formála um þetta merka skáld sem var afabróðir hans. Fréttablaðið/Daníel
Hannes Sigfússon fæddur í Reykjavík árið 1922 og fyrir honum lá að verða eitt helsta ljóðskáld sinnar kynslóðar. Hannes varð fyrst þekktur fyrir ljóðabókina Dymbilviku sem kom út árið 1949 og hlaut afar misjafnar viðtökur. En eftir hann liggja átta ljóðabækur og þeirra þekktust er líkast til Kirjálaeiði sem kom út 1995 og var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Í höfundarverki Hannesar er einnig að finna tvær skáldsögur og fjölda þýðinga sem höfðu mikil áhrif á íslenskar samtímabókmenntir en Hannes lést árið 1997.

Jón Kalman Stefánsson er á meðal þeirra íslensku rithöfunda og skálda sem unna verkum Hannesar og hann hefur nú tekið saman Ljóðaúrval Hannesar og ritar þar formála. En hvers vegna skyldi Jón hafi ákveðið að ráðast í þetta verk?

Tvöföld skylda

„Fyrst og fremst er Hannes gott og mikilvægt skáld fyrir okkur. Mikilvægt nafn í bókmenntasögunni. Það eru tæp tuttugu ár síðan hann lést og mjög langt síðan að úrval ljóða hans kom út og eins og stundum gerist eftir að skáld hverfa inn í skuggann þá vilja þau gleymast um tíma. Það er því nauðsynlegt upp á hringrásina að gefa út verk genginna skálda, sérstaklega betri skálda. Bókmenntir eru lífrænt kerfi þar sem er stöðug hringrás sem heldur lífinu gangandi og lætur gróðurinn verða grænan, fallegan og sterkan. Mikilvægur hluti af þessari hringrás eru gengnir höfundar og það er mjög mikilvægt að verk genginna skálda séu lifandi og lesin meðal okkar. Það verður ekki til neitt nýtt öðruvísi en við þekkjum það sem fyrir er.

Það er aðalástæðan fyrir því að ég fór í þetta verk en hitt er að Hannes var afabróðir minn og mér fannst að það hvíldi því á mér tvöföld skylda í þessum efnum. Annars vegar gagnvart bókmenntunum og svo gagnvart honum sem frænda mínum og manni sem ég kynntist, þótti vænt um og bar virðingu fyrir.

Ljóðlist nýrra tíma

Hannes hafði líka mikil áhrif á mig þegar ég var að byrja. Hann var mitt skáld. Þetta hljómmikla mál og þessi innblásnu ljóð og bálkar hreyfðu mikið við mér og höfðu mikil og djúp áhrif. Bæði skáldskapurinn og svo ekki síður hvernig hann notaði tungumálið.“

Hannes hefur nokkra sérstöðu á meðal íslenskra skálda enda var hann brautryðjandi íslenskri ljóðlist. Jón segir að það sem að miklu leyti skapi sérstöðu Hannesar sé hversu innblásið skáld hann hafi verið. „Hann var í raun sumpart skyldur Matthíasi Jochumssyni og Einari Benediktssyni. Þegar þannig skáld yrkja eins og þau gera best þá er eins og þau fari með mann á einhvern stað sem maður vissi ekki að væri til. En það sem gerir Hannes svo sérstakan í okkar bókmenntasögu er að hann var eitt af þessum skáldum sem kom til þroska þegar miklar breytingar eru að verða í íslenskum skáldskap. Nýir tímar eru að koma með bæði fagnaðarríkum og sársaukaríkum hætti. Viðtökurnar við fyrstu ljóðabók Hannesar voru þannig afar blendnar og menn skiptust alveg í tvö lið. Sumir litu á hann sem svikara við skáldskapinn en svo voru náttúrulega aðrir sem sáu betur. Reyndar voru mörg af eldri skáldum eins og Þórbergur Þórðarson og Halldór Laxness sem fannst þessi skáldskapur Hannesar vera mjög vond tíðindi. Gömlu byltingarmennirnir reyndust vera afar íhaldssamir.

Eilíf togstreita

En þessi glíma á milli þess gamla og nýja sést í raun einna best í Hannesi af þeim öllum því hann átti svo erfitt með að finna sína rödd. Vegna þess að hann þurfti að finna nýja leið til þess að tjá sína innri tilvist og hann gat ekki notað það sem fyrir var. Það gekk bölvanlega hjá honum og hann var hreinlega kominn í þunglyndi og svartnætti þegar hann kynntist ljóðum T.S. Eliot og tékkneska skáldsins Vitezslavs Nezval sem breyta honum. Þau kynni verða til þess að hann finnur sína leið og sú leið verður í senn leið íslenskra bókmennta inn í nýjan tíma. Hann á stóran þátt í því.

Hannes glímdi lengi við sína leið og ætlaði sér ungur maður að verða skáldsagnahöfundur. En sumir eru bara þannig að þeir eru ljóðskáld en aðrir eru sagnaskáld. Sumir eru hvort tveggja. Þeir eru blessaðir en það getur líka verið gott að vera annaðhvort eða en það er erfitt ef maður þráir að vera eitthvað annað en maður er. Hannes beit það mjög snemma í sig að hann væri prósahöfundur og hann átti mjög auðvelt með að skrifa prósa. Hann hafði mjög góðan og persónulegan stíl og gríðarlegt vald á málinu. Það vill nú soldið vera á Íslandi að ef þú ert góður lausamálsstílisti þá halda allir að þú getir skrifað skáldsögu en það er ekki beint samasemmerki þar á milli. Hannes var stöðugt að glíma við þetta. Að glíma við skáldsöguna sem var eiginlega ekki til í honum. Hann var það mikið ljóðskáld. Hann skrifaði Strandið sem er um margt mjög merkileg bók vegna þess að þar hafði hann atburði sem hann gat byggt á sem hann lifði sannarlega sjálfur en snilldin er í ljóðunum.“



Viðtalið birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.