Erlent

Líkir spillingu við krabbamein

Guðsteinn Bjarnason skrifar
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, ásamt Muhammadu Buhari, forseta Nígeríu.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, ásamt Muhammadu Buhari, forseta Nígeríu. vísir/epa
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, boðar alþjóðlegt samstarf gegn spillingu, með það meginmarkmið að ná aftur fé úr skattaskjólum.

Á leiðtogafundi í London, sem hann boðaði til í gær, sagði hann að Bretland myndi gera erlendum fyrirtækjum, sem eiga eignir á Bretlandi, skylt að gera opinberlega grein fyrir eignunum.

Fleiri lönd hafa boðið sams konar aðgerðir, þar á meðal Frakkland, Holland, Afganistan og Nígería. Bandaríkin hafa þó ekki viljað vera með.

„Lykillinn er að auka gagnsæið,“ sagði Cameron í opnunarræðu sinni á leiðtogafundinum. Hann sagði spillingu vera „krabbamein í innsta kjarna svo margra þeirra vandamála sem við þurfum að takast á við í heiminum“. Baráttan gegn spillingu væri ekki síst nauðsynleg til að ráðast gegn öfgafólki, sem þrífst í skjóli hennar.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tók í sama streng og sagði spillingu kynda undir glæpum og hryðjuverkum.

„Spillingin er augljóslega jafn mikill óvinur okkar, vegna þess að hún eyðileggur heilu þjóðríkin ekki síður en sumir þeirra öfgamanna sem við erum að berjast við.“

Meðal þátttakenda voru bæði Ahshraf Ghani, forseti Afganistans, og Muhammed Buhari, forseti Nígeríu. Cameron heyrðist fyrr í vikunni segja við Elísabetu drottningu að þessi tvö lönd væru líklega þau spilltustu í heimi.

Hvorki Ghani né Buhari létu þó þessi orðs Camerons á sig fá, heldur gengust fúsir við því að spilling þrifist í löndum sínum. Þeir segjast báðir ætla að vera áfram virkir þátttöku í baráttunni gegn þeirri spillingu.

„Við þurfum að hafa hugrekki til að nefna vandamálið á nafn,“ sagði Ghani um spillinguna í Afganistan. Ef menn væru stöðugt í afneitun eða kenndu hver öðrum um, þá þokaðist ekkert.

Buhari krefst þess síðan að öllum þeim miklu fjármunum, sem stolið hafi verið frá Nígeríu, verði skilað til baka fljótt. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×