Erlent

Nýr forseti í fjölmennasta ríki Suður-Am­er­íku

Birta Björnsdóttir skrifar
Dilmu Rousseff er gefið að sök að hafa hagrætt upplýsingum um efnahag þjóðarinnar til þess að fela vaxandi skuldastöðu Brasilíu í kosningabaráttunni 2014 þegar hún náði endurkjöri. Rousseff, sem hefur verið forseti í landinu frá árinu 2011, hefur alla tíð neitað ásökununum.

Vara­for­set­inn og and­stæðing­ur Rouss­eff, Michel Temer, tek­ur við embætti forseta Brasilíu. Þar með lýk­ur 13 ára valdatíð verkamannaflokksins yfir þess­ari fjölmennustu þjóð Suður-Am­er­íku.

Atkvæðagreiðsla og fyrirtaka málsins á þinginu tók um 20 klukkustundir og varð niðurstaðan sú að 55 þingmenn greiddu atkvæði með ákærunni en 22 þingmenn gegn henni.

Ekki eru allir jafn sannfærðir um sekt hennar. Jose Eduardo Cardozo, dómsmálaráðherra landsins, hélt til að mynda ræðu undir lok þinghhalds þar sem hann sagði ákæruna tilraun stjórnarandstöðunnar til að hrekja lýðræðislega kjörinn embættismann úr starfi og kallaði gjörninginn sögulegt óréttlæti.

„Heiðarleg og saklaus kona var rétt í þessu ásökuð að ósekju. Við erum að horfa upp á sögulegt óréttlæti," sagði Cardozo.

Aðrir fögnuðu ákærðunni og telja að með henni nái réttlætið loks fram að ganga.

„Öll okkar barátta skilaði loksins einhverju. Ég hef barist fyrir réttlætinu fyrir mig og börnin mín og baráttan hefur ekki verið auðveld. Ég er svo hamingjusamur," sagði Marcel Pinto þegar niðurstaða þingsins lá fyrir.

Talið er að réttarhöldin geti varað upp undir 180 daga, sem myndi þýða að Rousseff verður enn á sakamannabekknum þegar ólympíuleikarnir verða settir í Ríó þann 5.ágúst næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×