Erlent

Lent í Keflavík vegna tilraunar starfsmanns til sjálfsvígs

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi ISAVIA, segist ekki hafa upplýsingar um málið. Hins vegar staðfestir hann að umræddri vél hafi verið lent á þriðjudag vegna heilsufars farþega.
Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi ISAVIA, segist ekki hafa upplýsingar um málið. Hins vegar staðfestir hann að umræddri vél hafi verið lent á þriðjudag vegna heilsufars farþega. vísir/stefán
Lenda þurfti vél breska flugfélagsins British Airways á Keflavíkurvelli á þriðjudag vegna tilraunar starfsmanns um borð til sjálfsvígs. Starfsmaðurinn hafði skorið sig á púls og lokað sig inni á salerni vélarinnar, að því er greint er frá í breska blaðinu The Sun. RÚV greindi frá málinu.

Farþegar urðu þess varir að salernið hafði verið lokað í óvenju langan tíma, og fannst flugþjónninn þá liggjandi þar inni. Hann var færður á sjúkrahús eftir að hafa fengið aðhlynningu um borð.

Vélin var á leiðinni frá Los Angeles til Lundúna. Farþegar voru margir hverjir á leið á kvikmyndahátíðina í Cannes, meðal annars forsvarsmenn fyrirtækja í Hollywood.

Blaðið Hollywood Reporter hefur eftir Stan Rosenfield, sem var um borð í vélinni og er einn aðstoðarmanna leikarans George Clooney, að flugþjónar hafi komið hlaupandi að salerninu en síðar dregið tjald fyrir á meðan þau hafi hlúið að samstarfsfélaga sínum.

Forsvarsmenn British Airways hafa neitað að tjá sig um málið. Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi ISAVIA, staðfestir í samtali við Vísi að vélinni hafi verið lent í Keflavík vegna heilsufars farþega. Hann hafi ekki frekari upplýsingar um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×