Erlent

NASA fann 1.284 nýjar plánetur

Samúel Karl Ólason skrifar
V'isir/EPA
NASA tilkynnti í dag að 1.284 nýjar plánetur hefðu fundist með Kepler sjónaukanum. Sjónaukinn hefur verið notaður til að skanna svæði umhverfis um 150 þúsund stjörnur í leit að plánetum og þá sérstaklega plánetum sem gætu borið líf. Alls telja geimvísindamenn sig hafa fundið nærri því fimm þúsund plánetur.

Þar af hafa 3.200 verið staðfestar og 2.325 af fundust með Kepler.

Ellen Stofan frá NASA segir þetta gefa vísindamönnum von um að einhversstaðar þarna úti, á braut um stjörnu eins og okkar, sé mögulega hægt að finna nýja Jörð.

Af þessum 1.284 nýju plánetum gætu um 550 þeirra verið úr sambærilegum efnum og jörðin og níu þeirra eru innan þeirrar fjarlægðar frá sólu sinni svo vatn geti haldist í fljótandi formi. Alls er nú vitað um 21 plánetu sem eru innan þess svæðis frá sólu og gætu borið líf.

Sú næsta er í um ellefu ljósára fjarlægð. Ljósár er um 9.500.000.000.000 kílómetrar.

Plánetur mögulega fleiri en stjörnur

Þrátt fyrir að Kepler hafi fundið fjölmargar plánetur segja gögn úr sjónaukanum þó lítið um möguleg skilyrði þar og uppbyggingu.

Paul Hertz frá NASA segir að Kepler sjónaukinn hafi veitt vísindamönnum miklar upplýsingar um uppbyggingu vetrarbrautarinnar og að mögulega séu fleiri plánetur þar en stjörnur.

Frekari upplýsingar um sjónaukann má finna hér á vef NASA. Hér má svo sjá nánari upplýsingar um kynninguna í dag. Þar á meðal glærur og myndir.

Kepler mælir birtustig frá fjarlægum stjörnum og hvenær plánetur bregður fyrir þær. Útskýringarmyndband má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×