Erlent

Vilja heldur Vítisengla en flóttabörn

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Vítisenglar eru góðir grannar, að mati íbúa í Nacka í Svíþjóð.
Vítisenglar eru góðir grannar, að mati íbúa í Nacka í Svíþjóð. NORDICPHOTOS/AFP
Íbúar í Saltsjö-Boo í sveitarfélaginu Nacka í Svíþjóð vilja heldur hafa Vítisengla sem nágranna, heldur en flóttabörn sem komið hafa fylgdarlaus til landsins. Fyrirhuguð kaup sveitarfélagsins á húsnæði sem notað hefur verið sem fundarstaður fyrir Vítisengla hafa sætt harðri gagnrýni þar sem húsnæðið verður mögulega gert að bústað fyrir fylgdarlaus flóttabörn.

Sænska sjónvarpið greinir frá því að fjöldi íbúa í nágrenninu hafi skrifað sveitarfélaginu bréf og sagt frá áhyggjum sínum vegna mögulegrar komu 18 flóttabarna þangað. Einn bréfritaranna segir að hann muni ekki þora að láta eiginkonu sína vera utandyra, hvorki í garðinum né láta hana ganga eina heim frá vinnu. Hann þori ekki að láta dætur sínar koma í heimsókn. Aðrir segjast hafa aldrei hafa orðið fyrir ónæði af Vítisenglum. Hverfið hafi verið öruggt, þar hafi hvorki verið innbrot né skemmdarverk. Breyting blasi við verði áætlun sveitarfélagsins hrint í framkvæmd.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×