Elías Már Ómarsson skoraði eitt marka Vålerenga í 2-2 jafntefli gegn Álasund í Íslendingaslag í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Edwin Gyasi kom Álasund yfir á tólftu mínútu leiksins og þannig stóðu leikar í hálfleik. Á 71. mínútu jafnaði Elías Már leikinn.
Það virtist ekki duga til því Edwin Gyasi skoraði annað mark sitt og Álasundar á 83. mínútu, en það reyndist ekki sigurmarkið.
Kjetil Waehler jafnaði metin á 88. mínútu og lokatölur urðu 2-2.
Elías Már spilaði allan leikinn fyrir Vålerenga, en þetta var hans annað mark í deildinni. Þeir eru í þrettánda sætinu með ellefu stig.
Aron Elís Þrándarson var tekinn af velli á 62. mínútu, en Daníel Leó Grétarsson spilaði allan síðari hálfleikinn. Álasund er í tólfta sætinu með tólf stig.
Elías Már skoraði í Íslendingaslag
Anton Ingi Leifsson skrifar
