Björn Daníel Sverrisson var á skotskónum fyrir Viking í norsku úrvalsdeildinni í dag, en Björn skoraði fyrsta mark Viking.
Björn Daníel kom Viking yfir á fjórðu mínútu, en Björn á afmæli í dag. Claes Kronberg tvöfaldaði forystuna sextán mínútum síðar og staðan 2-0 í hálfleik.
Í síðari hálfleik fékk Andre Danielsen tækifæri til þess að koma Viking í 3-0 af vítapunktinum, en hann klúðraði.
Afmælisbarnið spilaði allan leikinn fyrir Viking, en Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður, sat allan tímann á bekknum hjá Bodø/Glimt.
Viking hefur byrjað mótið vel og er í fimmta sætinu með 23 stig, en Bodø/Glimt er í fjórtánda sætinu með ellefu stig.
Guðmundur Kristjánsson spilaði allan leikinn fyrir Start sem tapaði 5-0 fyrir Stabæk á útivelli. Start er í neðsta sætinu með sex stig.
