Erlent

Írakar sækja fram gegn ISIS við Fallujah

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Íraski herinn og vopnaðar sveitir sjíta sækja fram gegn vígamönnum Íslamska ríkisins við Fallujah. Borgin er ein af tveimur stórum borgum sem ISIS stjórnar í Írak. Nærliggjandi bær sem heitir Karma er nú í haldi hersins. ISIS-liðar felldu hermenn í sjálfsmorðsárás norður af borginni, en gagnárás þeirra var sigruð með hjálp þyrlna.

Þrátt fyrir að Karma sé nú laus við vígamenn ISIS og í haldi stjórnvalda, segir blaðamaður BBC að bærinn sé nánast rústir einar og þar sé enga almenna borgara að sjá.

Enn eru um 50 þúsund almennir borgarar í Fallujah, en þeim hefur verið skipað að flýja og/eða setja hvít lök á þök húsa sinna. Sameinuðu þjóðirnar segjast hafa fengið fregnir af því að almennir borgarar hafi dáið úr hungri í Fallujah og fólk hafi jafnvel verið myrt fyrir að neita að berjast fyrir ISIS.

Herinn undirbýr nú sókn á borgina sjálfa en ekki liggur fyrir hvenær af henni verður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×