Erlent

Bandarískir hermenn berjast með Kúrdum og aröbum í Sýrlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Ljósmyndari AFP tók mynd af hermönnunum í Sýrlandi í dag.
Ljósmyndari AFP tók mynd af hermönnunum í Sýrlandi í dag. Vísir/AFP
Bandarískir sérsveitarmenn taka þátta í bardögum nærri Raqqa, höfuðvígi Íslamska ríkisins, í Sýrlandi. Bandalagið Syrian Democratic Forces, sem stýrt er af Kúrdum, vinnur nú að því að einangra borgina. Ljósmyndari AFP sá allt að 20 hermenn og einhverjir þeirra fóru upp á þak húss nærri víglínunni norður af Raqqa í dag.

Þaðan skutu þeir eldflaugum að fararækjum sem ISIS-liðar notuðu til sjálfsmorðsárása. Farartækin eru brynvarin og hlaðin sprengiefnum. Svo er þeim ekið inn í víglínur SDF og sprengd í loft upp. Nokkrir tugir sérsveitarmanna hafa verið í Sýrlandi um nokkuð skeið, en í þessari viku áttu fyrstu af 250 mönnum til viðbótar að ferðast til Sýrlands.

Stjórnvöld í Washington hafa ávalt haldið því fram að mennirnir séu ekki sendir til Sýrlands til að taka þátt í bardögum.

Sókn SDF er einnig studd af loftárásum Bandaríkjanna. Allt í allt eru um 25 þúsund vopnaðir Kúrdar og fimm þúsund Arabar í bandalaginu. Bandaríkjamenn vilja fá fleiri Araba til að ganga til liðs við bandalagið þar sem Arabar eru fjölmennasti hluti íbúa á svæðinu. Kúrdum hefur gengið vel að berjast gegn ISIS í bæði Sýrlandi og Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×