Enski boltinn

Þarf Manchester United að borga Chelsea fyrir að nota nafn Mourinho?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Vísir/Getty
Jose Mourinho verður nær örugglega tilkynntur sem nýr knattspyrnustjóri Manchester United í þessari viku. Það er allt klárt nema spurningin um réttinn um að nota nafn og ímynd portúgalska stjórans.

Jose Mourinho er tilbúinn að taka við starfinu af Hollendingum Louis van Gaal og hann er sáttur við kaup og kjör í nýjum samningi en það er ekki hægt að ganga frá samningnum þar sem Chelsea á enn réttinn á því að nota nafn Jose Mourinho og eiginhandaráritun hans.  BBC segir frá þessari furðulegu stöðu í kvöld.

Samningarviðræður Jose Mourinho, umboðsmanns hans Jorge Mendes og forráðamanna Manchester United gengu mjög vel en samningurinn verður aldrei undirritaður fyrr en að United sé kominn með réttinn á að nota nafn og ímynd verðandi knattspyrnustjóra síns.

Chelsea sótti um einkarétt á nafni Jose Mourinho og eiginhandaráritun hans til Evrópusambandsins árið 2005 en þeir geta notað það til að selja allskonar vörur með mynd og nafni Portúgalans.

Samningarviðræðurnar hafa nú tekið þrjá daga og það er ljóst á öllu að þetta er flókið mál. Jose Mourinho er í það minnsta orðinn leiður á að bíða og sagði blaðamönnum fyrir utan heimili hans í dag að hann væri á leiðinni heim

Manchester United þarf því væntanlega að kaupa ímyndarréttinn af Chelsea og það gæti kostað sitt. Annars myndi félagið alltaf þurfa að borga Chelsea fyrir notkunin á nafni knattspyrnustjóra síns eigins félags.

Lögfræðingurinn Carol Couse sagði BBC frá því að það væri mjög óvenjulegt að einstaklingurinn sjálfur eigi ekki rétt á sínu eigin nafni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×