Enski boltinn

Englandsmeistararnir stefna á að halda sæti sínu í deildinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
vísir/getty
Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Leicester, segir það helsta markmið meistaranna á næstu leiktíð í ensku úrvalsdeildinni að falla ekki.

Leicester afrekaði það sem enginn hélt að væri hægt og stóð uppi sem Englandsmeistari í fyrsta sinn í 132 ára sögu félagsins.

Liðinu var spáð falli og voru líkurnar á að liðið yrði Englandsmeistari 5.000 á móti einum. Ranieri býst við erfiðri leiktíð næsta vetur vegna komu öflugra knattspyrnustjóra.

Pep Guardiola tekur við Manchester City, José Mourinho snýr aftur og tekur við Manchester United og samlandi Ranieri, Antonio Conte, er nýr stjóri Chelsea.

„Næsta tímabil verður annað frábært tímabil því Guardiola er að koma, Conte og José. Þetta verður mjög erfitt tímabil,“ segir Ranieri í viðtali við Daily Mirror.

„Getum við unnið þá? Við getum barist en við erum alltaf litla liðið. Ævintýrið varð einu sinni að veruleika og við unnum. Við viljum auðvitað verja titilinn okkar en það er líka mjög mikilvægt að halda sér í deildinni.“

„Við munum ekki breyta okkar leikstíl. Við förum vissulega inn í næstu leiktíð sem meistarar en ég til að strákarnir haldi sama viðhorfi og ef það gerist sætti ég mig við öll úrslit,“ segir Claudio Ranieri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×