Erlent

Kúrdar sviptir þinghelgi í Tyrklandi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Hiti var í þingmönnum á tyrkneska þjóðþinginu í gær þegar gengið var til atkvæða um umdeilt lagafrumvarp.
Hiti var í þingmönnum á tyrkneska þjóðþinginu í gær þegar gengið var til atkvæða um umdeilt lagafrumvarp. Vísir/EPA
„Þjóðin mín vill ekki sjá afbrotamenn á þingi,“ sagði Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, stuttu áður en þingið samþykkti að svipta suma þingmenn þinghelgi.

Alls greiddu 376 af 500 þingmönnum atkvæði með tillögu þess efnis.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar, einkum Kúrdar, eiga nú á hættu málshöfðun og jafnvel fangelsun fyrir að hafa stutt réttindabaráttu Kúrda.

Alls eru það 138 þingmenn, sem nú verða sviptir þinghelgi. Þeir eiga allir yfir höfði sér dómsrannsókn.

Flestir eru þeir þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna. Þar af er 51 úr CHP, flokki sósíaldemókrata, 50 úr HDP, flokki Kúrda, og einn er utan flokka.

Hins vegar eru 27 þeirra úr stjórnarflokknum AKP og níu úr þjóðernisflokknum MHP, sem hefur ásamt stjórnarflokknum lagt mikla áherslu á þessa lagabreytingu.

„Þetta er árás á okkur,“ hefur fréttastöðin Al Jazeera eftir einum þingmanna Kúrdaflokksins HDP, Meral Bestas.

Flokkurinn komst í fyrsta sinn inn á þing í tveimur kosningum á síðasta ári, fyrst í júní og svo aftur í nóvember. Kúrdar höfðu áður setið á þjóðþinginu sem óháðir þingmenn, en buðu í fyrsta sinn fram undir merkjum flokks síns á síðasta ári.

Seta þeirra á þingi kemur hins vegar í veg fyrir að flokkur Erdogans forseta hafi nægan meirihluta til að geta komið í gegn stjórnarskrárbreytingum til að styrkja völd forsetans, sem Erdogan hefur ákaft reynt að koma í gegnum þingið.

Meðan þetta gerist er Evrópusambandið að taka ákvörðun um hvort veita eigi Tyrkjum heimild til að ferðast til aðildarríkja sambandsins án vegabréfsáritunar.

Vegabréfafrelsi Tyrkja í Evrópu­sambandsríkjum er partur af samkomulagi ESB við tyrknesk stjórnvöld, sem gert var nýverið. Tyrkir hafa lofað að taka í staðinn við flóttafólki, sem farið hefur ólöglega í gegnum Tyrkland yfir til Grikklands og þaðan áfram til Evrópu.

Auk þess að veita Tyrkjum vegabréfafrelsi hefur ESB greitt Tyrkjum þrjá milljarða evra, og hyggst greiða þrjá milljarða til viðbótar standi Tyrkir við sinn hluta samkomulagsins. Samtals eru þetta sex milljarðar evra eða nærri 850 milljarðar króna.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 21.maí






Fleiri fréttir

Sjá meira


×