Erlent

Tugir látist vegna flóða á Srí Lanka

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá höfuðborg Srí Lanka í vikunni.
Frá höfuðborg Srí Lanka í vikunni. vísir/getty
200 þúsund íbúar höfuðborgar Srí Lanka, Colombo, hafa þurft að flýja heimili sín vegna gríðarmikilla flóða í landinu síðustu daga.

Ekki hefur verið meiri úrkoma á Srí Lanka í um 25 ár og hafa flóðin valdið gríðarmiklum aurskriðum með þeim afleiðingum að minnsta kosti 63 manns hafa látið lífið. Þá er að minnsta kosti 144 saknað og er því óttast að tala látinna eigi eftir að hækka.

Maithripala Sirisena, forseti Srí Lanka, hefur hvatt landsmenn til að hjálpa til við að hlúa að þeim sem eiga um sárt að binda vegna flóðanna en talið er að um hálf milljón íbúa landsins þurfi á neyðaraðstoð að halda.

„Við höfum nú þegar fengið aðstoð frá vinum okkar í alþjóðasamfélaginu,“ sagði forsetinn í sjónvarpsávarpi til þjóðarinnar.

„Nú vil ég hvetja alla landsmenn, fyrirtæki og hjálparsamtök að hjálpa þeim sem hafa orðið illa úti á allan hátt sem þið getið.“

Íbúafjöldi Srí Lanka er tæplega 21 milljón en um 650 þúsund búa í höfuðborginni. Herinn stýrði aðgerðum þar í gærkvöldi þegar stórir hlutar borgarinnar voru rýmdir vegna flóðanna.

Ástandið er hvað verst í héraðinu Kegalle sem er norðaustur af Colombeo. Þar létust alls 34 í tveimur aurskriðum í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×