Skoðun

Við eigum kindurnar!

Guðmundur Edgarsson skrifar
Framtaksmaður í þorpi nokkru hefur fjárbúskap. Hann segir upp góðri vinnu, aflar sér nauðsynlegrar þekkingar og færni, tekur lán og fjárfestir í jörð og býli auk sauðfjárkvóta. Gangi vel, nýtur hann ábatans; fari miður, stendur hann uppi atvinnulaus og stórskuldugur. Fyrstu búskaparárin ganga erfiðlega og bóndanum verða á ýmis mistök. Síðan rofar til. Nýir búskaparhættir eru þróaðir, nýrra markaða er aflað og umsvifin aukast stig af stigi. Er nú svo komið að atvinnusköpun og skatttekjur þorpsins af rekstri býlisins og tengdri þjónustu eru meiri en af nokkurri annarri starfsemi. Efnahagsleg framtíð þorpsins er björt.

Sauðfé er auðlind

En þá rís upp hópur fólks í þorpinu sem krefst beinnar hlutdeildar í ágóðanum. „Við eigum jú öll kindurnar,“ segir fólkið og bendir á að sauðfé sé auðlind og því sameign þorpsbúa. Bóndinn mótmælir enda hefur hann greitt fullt verð fyrir jörðina og kvótann sem og alla skatta af tekjum og arði. Engu að síður telja þorpsbúar að býlið taki til sín óeðlilega stóra sneið af kökunni. Bóndinn bendir þá á að hann hafi ekki tekið eitt né neitt, einungis aflað og lagt til – stækkað kökuna, ekki minnkað.

Sátta leitað

Þar sem bóndinn vill ekki standa í langvarandi deilum við þorpsbúa leggur hann til tvennt. Annars vegar að þorpsbúar segi upp vinnunni, læri til bústarfa, veðsetji eignir sínar og fjárfesti í jörð og kvóta, byggi upp viðskiptasambönd og læri að lifa við stöðuga óvissu. Hins vegar að hvert heimili fái kind að gjöf frá bóndanum gegn því að hann verði eftirleiðis látinn í friði.

Því miður fá tillögurnar tvær ekki hljómgrunn. Fyrri tillagan felur í sér of mikla röskun og áhættu. Viðbrögð þorpsbúa við hinni síðari eru lítt skárri því spurt er: „En hvað eigum við svo að gera við allar þessar kindur?“




Skoðun

Sjá meira


×