Fótbolti

Viðar Örn besti framherjinn í Svíþjóð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viðar sækir boltann eftir að hafa skorað eitt fjórtán marka sinna á tímabilinu.
Viðar sækir boltann eftir að hafa skorað eitt fjórtán marka sinna á tímabilinu. vísir/getty
Þrátt fyrir að missa af síðustu tíu leikjum tímabilsins var Viðar Örn Kjartansson valinn sóknarmaður ársins í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Þetta var tilkynnt á árlegu lokahófi deildarinnar í gærkvöldi.

Viðar skoraði 14 mörk í fyrstu 20 leikjum tímabilsins fyrir Malmö áður en hann var seldur til Maccabi Tel Aviv í Ísrael.

Viðar var lengi vel markahæstur í deildinni en John Owoeri, framherji Häcken, skaust upp fyrir hann á markalistanum þegar hann skoraði fernu gegn Falkenbergs í lokaumferðinni. Viðar þurfti því að sætta sig við silfurskóinn.

Fleiri leikmenn Malmö fengu verðlaun á lokahófinu í gær.

Johan Wiland var valinn markvörður ársins og Magnus Wolff Eikrem miðjumaður ársins. Þá var Kári Árnason einn þriggja sem komu til greina sem varnarmaður ársins.

Þau verðlaun féllu Andreas Johannsson hjá Norrköping í skaut en hann var einnig valinn verðmætasti leikmaður sænsku deildarinnar.

Malmö varð sænskur meistari í ár en liðið fékk sex stigum meira en AIK og Norrköping sem voru jöfn að stigum í 2.-3. sæti deildarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×