Erlent

Clinton hrósar Sanders fyrir baráttuna

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Hillary Clinton verður forsetaefni Demókrataflokksins í kosningunum í nóvember.
Hillary Clinton verður forsetaefni Demókrataflokksins í kosningunum í nóvember. Fréttablaðið/EPA
Hillary Clinton hvetur stuðningsmenn Bernies Sanders til að fylkja sér að baki henni í kosningabaráttunni fram undan. Hún tryggði sér útnefningu Demókrataflokksins í forkosningum á þriðjudag.

„Hvort sem þið studduð mig eða Sanders eða einhvern repúblikananna, þá þurfum við að standa saman við að gera Bandaríkin betri, sanngjarnari og sterkari,“ sagði hún og hrósaði jafnframt Sanders fyrir baráttugleðina: „Kosningabarátta hans og þær áköfu kappræður sem við höfum átt í um það hvernig eigi að hækka tekjur, draga úr ójöfnuði og styrkja félagslegan hreyfanleika upp á við hafa haft mjög góð áhrif á Demókrataflokkinn og Bandaríkin.“

Sanders segist hins vegar enn staðráðinn í að halda áfram baráttunni þangað til á landsþingi Demókrataflokksins í lok júlí.

„Ég er frekar góður í reikningi og geri mér fulla grein fyrir því að baráttan fram undan verður afar kröpp fyrir okkur,“ sagði hann að kvöldi þriðjudags. „En við ætlum að halda áfram að berjast um hvern einasta fulltrúa.“

Clinton lýsti yfir sigri á fundi með stuðningsmönnum sínum í fyrrakvöld, þar sem hún þakkaði meðal annars móður sinni fyrir að hafa gefið sér gott ráð. „Hún kenndi mér að hopa aldrei undan ofstopamönnum,“ sagði hún og uppskar mikil fagnaðarlæti í salnum.

Hún beindi síðan spjótum sínum að Donald Trump, forsetaefni Repúbl­ikanaflokksins, sem væntanlega mun keppa við hana í forsetakosningunum í nóvember.

Hún sagði Trump óhæfan til þess að gegna forsetaembættinu, einfaldlega vegna þess hvers konar skapferli hann væri gæddur: „Hann vill sigra með því að ýta undir ótta okkar og nudda salti í sárin, og minna okkur daglega á það hversu frábær hann er. Við teljum að við eigum að hjálpa hvert öðru upp, ekki rífa hvert annað niður.“

Enn eiga demókratar þó eftir að kjósa sér forsetaefni í höfuðborginni Washington. Þær forkosningar fara fram á þriðjudaginn, 14. júní.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×