Fótbolti

Ronaldo mætti úthvíldur eftir djammið og skoraði tvö í stórsigri Portúgals

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cristiano Ronaldo er í fullu fjöri og til í slaginn gegn Íslandi.
Cristiano Ronaldo er í fullu fjöri og til í slaginn gegn Íslandi. vísir/getty
Portúgal, sem Ísland mætir í fyrsta leik á EM í Frakklandi á þriðjudaginn, valtaði yfir Eistland, 7-0, í síðasta vináttuleik liðsins fyrir Evrópumótið í kvöld.

Cristiano Ronaldo mætti eftir snekkjudjammið og spilaði leikinn en hann kom til móts við liðið í fyrradag. Ronaldo spilaði allar 90 mínúturnar og skoraði tvö mörk.

Ronaldo skoraði á 36. og 45. mínútu en Ricardo Quaresma skoraði einnig fyrra markið sitt af tveimur í fyrri hálfleiknum. Staðan 3-0 eftir 45 mínútu.

Portúgalar héldu áfram að raða inn mörkum í seinni hálfleik. Danilo, samherji Ronaldo hjá Real Madrid, skoraði fjórða markið á 55. mínútu og sex mínútum síðar gerðu Eistarnir sjálfsmark.

Qaresma bætti við öðru marki sínu á 77. mínútu og þremur mínútum síðar skoraði Éder sjöunda mark Portúgal sem vann stórsigur, 7-0, og kemur á fullum skriði til Frakklands.

Portúgal er búið að vinna þrjá leiki af fimm á árinu en liðið tapaði fyrir Búlgaríu í vináttuleik í mars og Englandi á Wembley í byrjun júní. Liðið er aftur á móti búið að vinna Belgíu, Noreg og nú Eistland á þessu ári.

Ísland og Portúgal mætast í St. Étienne 14. júní.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×