Erlent

Fjórir látnir eftir skotárás í Tel Aviv

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Viðbúnaður var í borginni vegna árásarinnar.
Viðbúnaður var í borginni vegna árásarinnar. vísir/afp
Fjórir létust og sex særðust í skotárás tveggja Palestínumanna á verslana- og veitingastaðaklasa í Tel Aviv í Ísrael í kvöld. Árásarmennirnir eru báðir í haldi lögreglu. Annar þeirra liggur á sjúkrahúsi og er í aðgerð vegna skotsára. 

Árásum Palestínumanna á Ísraela hefur farið fækkandi að undanförnu þó en sé of mikið um hnífstungu- og skotárásir. Dregið hefur úr þeim frá því í fyrra þegar þær náðu hápunkti.

Sjúkrahúsið, sem tók á móti hinum slösuðu, sagði í yfirlýsingu að fjórir hinna særðu, sem fluttir voru til þeirra, hafi látist. Af hinum sex særðu eru þrír í lífshættulegu ástandi. 

Á tímabili var óttast að þriðji byssumaðurinn gengi laus eftir árásina en sá ótti reyndist ekki á rökum reistur.

Upphafleg frétt 19.33: Níu manns liggja sárir eftir skotárás í verslunarklasa í Tel Aviv í kvöld. Að minnsta kosti einn er lífshættulega særður.

Árásin átti sér stað skammt frá ísraelska varnarmálaráðuneytinu og höfuðstöðvum hersins.

Samkvæmt frétt BBC um málið eru upplýsingar á reiki um hvað gerðist nákvæmlega. Ísraelskir fjölmiðlar fullyrða að árásarmennirnir hafi verið tveir og annar þeirra hafi verið felldur.

Uppfært 19.54: Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni eru þrír látnir eftir árásina. Árásarmennirnir tveir hafa verið yfirbugaðir. Ekki hefur fengist staðfest hvort þeir séu lífs eða liðnir. Þetta kemur fram á AP.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×