Skoðun

Hvers vegna umhverfismat hótels í Kerlingarfjöllum?

Snorri Baldursson skrifar
Hans Kristjánsson, einn eigenda Fannborgar ehf. sem rekur ferðaþjónustu og hálendismiðstöð í Kerlingarfjöllum, skrifaði grein í Fréttablaðið þann 26. maí sl. undir heitinu „Skrýtin svör og starfsaðferðir Landverndar“. Þar sem vitnað er í undirritaðan með beinum hætti og spurt hvað Landvernd sé að kæra er sjálfsagt að bregðast við.

Forsagan

Forsaga málsins er að Landvernd kærði 4. ágúst sl. ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki þyrfti að meta fyrsta áfanga af þremur í uppbyggingu 342 manna gistiaðstöðu í Kerlingarfjöllum, þar með stóra hótel­byggingu fyrir 240 manns. Stofnunin úrskurðaði þó að umhverfismeta skyldi seinni áfangana tvo. Landvernd taldi þetta sérkennilega ákvörðun sem ekki stæðist lög um mat á umhverfis­áhrifum og kærði því úrskurðinn. Þegar fyrir lá að framkvæmdir væru hafnar við fyrsta áfanga og að þær gætu hugsanlega klárast áður en úrskurður ÚUA lægi fyrir fór Landvernd annarsvegar fram á stöðvun framkvæmda og hins vegar kærðu samtökin byggingarleyfi það sem Hrunamannahreppur gaf út. Þetta kallar Hans skrýtnar starfsaðferðir.

Ástæður kæru

Kærurnar eru lögum samkvæmt, eins og Hans raunar bendir á, og settar fram til þess að tryggja að hótelframkvæmdin í heild sinni fari í mat á umhverfisáhrifum. Deiliskipulagsbreytingin fór framhjá okkur á sínum tíma, því miður, og þar með möguleiki til athugasemda á því stigi.

Landvernd krefst heildstæðs umhverfismats af eftirfarandi ástæðum:

Fyrirhuguð hótelbygging er hin fyrsta sinnar tegundar á miðhálendinu að umfangi og útliti og er því fordæmisgefandi.

Útlitshönnun sýnir að horfið er frá uppbyggingu í anda fjallaskála og þjónustustig er hækkað.

Óvíst er hvernig byggingin fellur að markmiðum landsskipulagsstefnu þar sem m.a. er kveðið á um að uppbygging innviða skuli taka mið af sérstöðu í náttúrufari miðhálendisins (þ.m.t. víðernum).

Ófært er að undanskilja um­hverfis­áhrif af fyrsta áfanga t.d. hvað varðar breytt þjónustustig, ágang ferðamanna á nærliggjandi náttúruverndarsvæði, samspil við vegagerð á Kili, o.s.frv.

Þetta eru meginástæður fyrir kærum Landverndar. Við þær má svo bæta að rannsóknir Önnu Dóru Sæþórsdóttur, prófessors í ferðamálafræði við HÍ, hafa sýnt að hótel eru þau mannvirki sem 93% ferðamanna telja síst samræmast hugmyndum um víðerni á hálendinu. Sams konar viðhorf koma fram í könnun meðal ferðamanna sem Fannborgarmenn sjálfir stóðu að í tengslum við gerð umhverfismatsskýrslu.

Þar með hefur þú svarið sem þú kallar eftir, Hans. Málið snýst ekki um það hvort Fannborg hafi gengið vel eða illa um Kerlingarfjöll. Málið snýst ekki í grunninn um Fannborgu ehf., þótt vissulega geti þessar kærur tafið fyrir áformum þess fyrirtækis. Við bendum á að allt miðhálendið, sem Landvernd ásamt fleirum berst fyrir að verði gert að þjóðgarði, er þjóðlenda í eigu allra Íslendinga og einn okkar mikilvægasti og verðmætasti náttúruarfur.

Þess vegna verða þeir, sem vilja standa í miklum framkvæmdum á borð við hótelbyggingar á mið­hálendinu, að þola það að samtök, sem gæta réttar almennings og náttúrunnar, grípi til allra þeirra ráða sem tiltæk eru lögum samkvæmt til að tryggja að umhverfisáhrif framkvæmdanna séu metin í heild sinni. Krafan er ekki stærri en það. Á sama hátt er það alls ekki einkamál eins sveitarfélags hvernig uppbyggingu á miðhálendinu verður háttað.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×