Fótbolti

Hallbera: „Við ætluðum að stúta þeim“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hallbera Gísladóttir var afar kát í leikslok eftir öruggan sigur á Makedóníu.
Hallbera Gísladóttir var afar kát í leikslok eftir öruggan sigur á Makedóníu. Vísir/eyþór
„Við ætluðum að stúta þeim,“ sagði Hallbera Gísladóttir, varnarmaður íslenska landsliðsins aðspurð um uppleggið í leik íslenska landsliðsins gegn Makedóníu í kvöld.

Óhætt er að segja að það hafi tekist en leikar fóru 8-0 í afar auðveldum og þægilegum sigri á slöku liði Makedóníu. Hallbera segir að það erfiðista við leikinn í kvöld hafi verið að halda einbeitingu í 90 mínútur.

„Það reyndi aðallega á hausinn að halda einbeitingu í 90 mínútur gegn arfaslökum andstæðingum. Það gengur upp og niður og stundum er auðvelt að detta niður á sama plan og andstæðingurinn. Mér finnst við þó hafa náð að klára þetta nokkuð sannfærandi,“ segir Hallbera með bros á vör.

Ekki reyndi mikið á varnarleik liðsins í kvöld enda fór andstæðingurinn afar sjaldan inn á vallarhelming íslenska landsliðsins. Íslenska vörnin hefur verið afar sterk í undankeppninni og hefur ekki fengið á sig mark í öllum sex leikjum liðsins hingað til. Hallbera segir að markmiðið sé að halda því þannig út undankeppnina.

„Það hefur kannski ekki reynt rosalega mikið á okkur í þessum leikjum í keppninni en t.d. gegn Skotlandi þá gekk okkar leikur fullkomnlega. Ég vona að við höldum út næstu tvo leiki og klárum þetta á núllinu bara,“ segir Hallbera sem sér EM í Hollandi næsta sumar í hyllingum.

„Ég held að við getum nánast sett taðfest í sviga fyrir aftan það. Við eigum samt eftir að klára þetta 100 prósent og við ætlum að gera það,“ en framundan eru tveir heimaleikir í september þar sem Ísland getur endanlega gulltryggt sætið á lokamóti EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×