Erlent

Fjórða árásin í Istanbúl og Ankara á þessu ári

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, ræddi í gær við fjölmiðla eftir að hafa heimsótt hina særðu á sjúkrahús.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, ræddi í gær við fjölmiðla eftir að hafa heimsótt hina særðu á sjúkrahús. Nordicphotos/AFP
Að minnsta kosti ellefu manns létu lífið og tugir særðust í sprengjuárás, sem gerð var á lögreglubifreið í Istanbúl í gærmorgun, skammt frá lestarstöðinni Vezn­eciler. Sjö hinna látnu voru lögreglumenn.

Sprengju hafði verið komið fyrir í bifreið sem síðan var sprengd með fjarstýringu þegar lögreglubifreiðin var komin að henni. Önnur sprenging varð stuttu síðar og er talið að þar hafi gashylki sprungið.

Þetta er fjórða sprengjuárásin í stórborgunum Istanbúl og Ankara í Tyrklandi það sem af er þessu ári. Síðan um mitt síðasta ár hafa hátt í tíu slíkar árásir verið gerðar í þessum borgum.

Ýmist hafa herskáir Kúrdar eða liðsmenn Daish-samtakanna verið taldir bera ábyrgð á þessum árásum. Stundum hefur þó enginn lýst yfir ábyrgð þannig að enn er ekki vitað hverjir voru að verki í sumum þessara árása.

Recep Tayyip Erdogan forseti hét því að barist verði gegn vopnuðum hópum af þessu tagi þangað til yfir lýkur, eins og hann orðaði það í fjölmiðlum í gær.

Hann heimsótti hina særðu á sjúkrahús í Istanbúl og sagði að því loknu árásina vera ófyrirgefanlega.

Þessi árás var gerð þegar föstumánuðurinn ramadan var nýhafinn, en þann mánuð fasta múslimar á daginn en efna svo til veislu á kvöldin.

Árásirnar hafa orðið til þess að ferðafólki hefur fækkað um nærri þriðjung á milli ára í Tyrklandi.

Tyrkneski herinn hóf á síðasta ári, með samþykki og stuðningi frá NATO, árásir á bæði Kúrda og liðsmenn Daish-samtakanna. Kúrdar segja Tyrki hafa notfært sér almenna andúð á Daish-samtökunum til að beina spjótum sínum að Kúrdum og berja niður réttindabaráttu þeirra.

Sprengjuárásir í Ankara og Istanbúl

Júní 2016

11 manns létu lífið í sjálfsvígsárás á lögreglubifreið í Istanbúl.

Mars 2016

35 manns létu lífið í Ankara, þar sem herskáir Kúrdar voru að verki, og fjórir í Istanbúl.

Febrúar 2016

28 manns létu lífið þegar ráðist var á bílalest hersins í Ankara.

Janúar 2016

Tólf þýskir ferðamenn létu lífið í sjálfvígsárás í Istanbúl. Talið að vígamenn Íslamska ríkisins hafi verið þar að verki.

Október 2015

103 létu lífið og meira en 200 særðust í Ankara þar sem tveir sjálfsvígsárásarmenn réðust á fólk á friðarsamkomu.

Ágúst 2015

Sjö manns létu lífið í sprengjuárás á lögreglustöð í Istanbúl. Yfirvöld telja að Kúrdar hafi verið þar að verki.





Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. júní 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×