Skoðun

Séreign frekar en sérskuld

Eygló Harðardóttir skrifar
Allt þetta kjörtímabil hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á að hjálpa heimilum að skulda minna. Í upphafi kjörtímabilsins var farið í skuldaleiðréttingu hjá heimilunum. Mikilvægur þáttur hennar var séreignarsparnaðarleiðin. Með henni var heimilum gert kleift að nýta séreignarsparnað til að niðurgreiða húsnæðislán sín umfram höfuðstólslækkunina, eða spara fyrir útborgun í íbúð eða búseturétti.

Árangurinn er mikill. Í fjármálastöðugleikariti Seðlabankans segir að fara þurfi aftur til 1999 til að finna jafn lágt skuldahlutfall heimilanna og um síðustu áramót. Skuldir heimilanna höfðu lækkað um 70 milljarða á árunum 2014 og 2015, bæði vegna beinnar niðurfærslu og vegna heimildar til nýtingar séreignarsparnaðar.

Því til viðbótar má áætla að 22-24 milljarðar hafi komið inn á húsnæðislánin vegna þeirrar fjárhæðar sem lögð var inn í byrjun árs til að lækka höfuðstól og vegna heimildar til að ráðstafa séreignarsparnaði inn á lánin.

Í nýrri könnun um stöðu leigjenda og eigenda á húsnæðismarkaði kom fram að stór hluti heimila safnar fé í séreignarsjóði. Af leigjendum eru 52,8% að greiða í séreignarsparnað, þar af 61% þeirra sem eru á aldrinum 25-44 ára og af eigendum voru það 66,0%, þar af 83% þeirra sem eru á aldrinum 35-44 ára. Tæplega helmingur aðspurðra eigenda nýtti sér heimild til að ráðstafa séreignarsparnaðinum inn á húsnæðislánin sín, eða 47,9%.

Af leigjendum höfðu 38,8% mjög mikinn eða frekar mikinn áhuga á því að nýta séreignarsparnað til að kaupa húsnæði.

Töluverð umræða hefur verið um framtíðarfyrirkomulag séreignarsparnaðar. Í yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga var því lofað að hvetja til húsnæðissparnaðar, t.d. þannig að tímabundin heimild til að nýta séreignarsparnað sem eiginfjárframlag til kaupa á íbúðarhúsnæði yrði gerð varanleg. Það yrði til viðbótar við meiri stuðning við leigjendur, sem gefur þeim meira svigrúm til sparnaðar.

Nýtt fyrirkomulag myndi einnig létta greiðslubyrðina við töku óverðtryggðra lána. Áfram verði heimilunum hjálpað að spara, leggja fyrir og borga niður skuldir.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 7. júní 2016 




Skoðun

Sjá meira


×