Erlent

Milljarðar nást til baka

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu.
Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu. Nordicphotos/Afp
Upplýsingamálaráðherra Nígeríu sagði í gær ríkisstjórn Muhammadu Buhari forseta hafa endurheimt um 1.100 milljarða króna virði af stolnu fé og eignum. Buhari var kjörinn forseti í fyrra og var helsta kosningaloforð hans að berjast gegn spillingu. Lofaði hann því að endurheimta ótrúlegt magn peninga sem stolið hafi verið úr olíugeiranum.

„Allir þessir peningar hafa verið endurheimtir frá einstaklingum og fyrirtækjum sem höfðu stolið þeim og falið þá frá ríkinu,“ sagði ráðherrann Segun Adeyemi við Reuters. Þá sagði hann að enn ætti eftir að endurheimta fúlgur fjár frá Nígeríumönnum í Sviss, Englandi, Bandaríkjunum og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Undanfarið ár hefur verð á hráolíu lækkað mikið og hefur það haft slæm áhrif á efnahag landsins en ríkisstjórnin vonast til að hinir endurheimtu peningar fari langleiðina með að rétta hann af.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. júní




Fleiri fréttir

Sjá meira


×