Erlent

Hægt að reka biskupa fyrir barnaníð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frans páfi ásamt litlum dreng í Vatíkaninu.
Frans páfi ásamt litlum dreng í Vatíkaninu. Vísir/Getty
Ný lög sem Frans páfi kynnti í dag heimila kaþólsku kirkjunni að reka þá biskupa sem láta undir höfuð leggjast að reka presta sem hafa gerst sekir um að misnota börn.

Með þessu mætir páfinn kröfu sem fórnarlömb presta kaþólsku kirkjunnar hafa haft uppi í mörg ár en með lögunum eru biskupar gerðir ábyrgir ef þeir grípa ekki í taumana gegn prestum sem misnota börn.

Árum ef ekki áratugum saman hafa biskupar verið sakaðir um að færa þá presta sem misnota börn einfaldlega í aðra sókn í stað þess að tilkynna þá til lögreglunnar eða yfirstjórnar kirkjunnar.

Lögin, sem taka gildi í september, ná einnig til annarra æðri embættismanna kaþólsku kirkjunnar. Þau eru sett aðeins tveimur vikum eftir að Frans páfi sætti mikilli gagnrýni fyrir að að funda með frönskum kardinála sem sakaður er um að hafa hylmt yfir barnaníð prests í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×