Menning

Um leið og ég tók upp blýantinn kom nostalgían

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Gabríela innan um nokkra af þeim skringilegu skúlptúrum sem hún bjó til fyrir sýninguna, en fengu svo ekki pláss.
Gabríela innan um nokkra af þeim skringilegu skúlptúrum sem hún bjó til fyrir sýninguna, en fengu svo ekki pláss. Vísir/Anton Brink
Sýningin sprettur út frá teiknimyndinni Innra líf heysátu sem ég gerði á síðasta ári með franska kvikmyndagerðarmanninum Pierre-Alain Giraud. Teikningarnar á veggjunum eru hluti af þeim sem ég gerði fyrir þá mynd,“ byrjar Gabríela Friðriksdóttir þegar hún er beðin að lýsa því hvernig innsetningin Innra líf heysátu í Gallery GAMMA í Garðastrætinu í Reykjavík varð til.



Hún lýsir teikningunum nánar. „Þetta var í fyrsta skipti frá því ég var unglingur sem ég notaði blýantinn aftur til að móta bæði fínar og grófar línur. Ég tók svolítið unglingatæknina á þetta, blýanturinn kallaði á það. Það er talað um tjáningarraunsæi í listasögunni en þetta varð táningaraunsæi hjá mér. Um leið og ég tók upp blýantinn kom nostalgían yfir mig.“

Sýningin er hluti af dagskrá Listahátíðar og Gabríela segir Hönnu Styrmisdóttur, framkvæmdastjóra hennar, og sýningarstjórana Ara Alexander Ergis og Jón Proppé, hafa ákveðið að nota teiknimyndina frá síðasta ári og teikningarnar á sýningunni.





„Þegar ég heimsótti galleríið og fór að velta hlutunum fyrir mér langaði mig að bæta einhverju við og í gegnum tíðina hef ég alltaf gert stofustærð af styttum öðru hverju.Kannski er það hluti af því að vera með svona barnalegan húmor í myndunum að mér fannst ég þurfa að vera með fígúrur sem gerðu innra líf heysátunnar enn persónulegra. Svo skúlptúrarnir eru alveg nýir.“

En var ekkert vandamál að nálgast heyið? „Nei, en það var samt dálítið krítískt, ég vissi ekkert hver ætti bagga núna eftir veturinn en hann Ólafur Hafliðason á Birnustöðum reddaði mér.







Sáturnar úti eru líka dálítið skemmtilegt atriði, ég fékk aðstoð garðyrkjumeistara með það. Garðurinn er svo flottur og okkur fannst frábær hugmynd að hafa svona „sveit í bæ“ stemningu þar.

Ég varð bæði glöð og hissa þegar fundust gamaldags hrífur með trétindum í Bauhaus. Svo var ég alltaf að hugsa um gömul net sem voru upplituð af sólinni eins og ég man eftir að vestan en fékk svarið „Hægan, hægan, Gabríela, þau eru öll komin á sjóminjasöfn!““

Gabríela er einmitt á förum vestur á firði þegar þetta viðtal fer fram. Hvað skyldi standa til þar? „Ég er að byrja á nýju verkefni með Valdimar Jóhannssyni tónlistarmanni og Ernu Ómarsdóttur dansara,“ upplýsir hún. „Það á að fara að filma fyrir vestan.“

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. júní 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.