Menning

Hefur alltaf haft áhuga á leikstjórn

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Oddur Júlíusson er aðstoðarleikstjóri Djöflaeyjunnar, en þetta mun vera frumraun hans í leikstjórasætinu.
Oddur Júlíusson er aðstoðarleikstjóri Djöflaeyjunnar, en þetta mun vera frumraun hans í leikstjórasætinu. Vísir/Hanna
Sem stendur er ég í miðju æfingaferli á Djöflaeyjunni þar sem ég er í hlutverki aðstoðarleikstjóra en Atli Rafn Sigurðsson er leikstjóri verksins,“ segir Oddur Júlíusson leikari spurður út í aðkomu sína að verkinu Djöflaeyjan sem frumsýnt verður í þjóðleikhúsinu 3. september.

Oddur útskrifaðist úr leiklistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2013 og hefur frá þeim tíma verið á samningi hjá Þjóðleikhúsinu og farið með fjölda hlutverka, en hann var tilnefndur til Grímuverðlaunanna í ár sem leikari ársins í aukahlutverki fyrir verkið Um það bil, í leikstjórn Unu Þorleifsdóttur.

„Það er búið að vera alveg frábært að vinna hér í Þjóðleikhúsinu ég hef á þeim stutta tíma sem ég hef unnið hér fengið frábær tækifæri og tekið þátt í mjög skemmtilegum og krefjandi verkefnum.“

Meðal leiksýninga sem Oddur hefur tekið þátt í eru Hleyptu þeim rétta inn, Fjalla-Eyvindur, Dýrin í Hálsaskógi, Óvitar, Ofsi, Spamalot, Eldraunin.

„Þetta hefur verið einstaklega skemmtilegt, ég hef fengið að þroskast mikið sem leikari og finnst ég eiga mikið inni. Í dag er ég að leika í leiksýningunni, Í hjarta Hróa hattar en það eru nokkrar sýningar eftir áður en leikhúsið fer í sumarfrí,“ segir Oddur.

Eins og fram hefur komið er Oddur aðstoðarleikstjóri í Djöflaeyjunni, en þetta mun vera frumraun hans í leikstjórasætinu. Djöflaeyjan er nýr söngleikur, byggður á metsölubók Einars Kárasonar og fjallar verkið um drauma, sorgir og sigra fjölskyldu Karólínu spákonu, og mannlífið í braggahverfum Reykjavíkur á eftirstríðsárunum.

„Þetta er alveg ótrúlega skemmtilegt og hópurinn allur alveg frábær, ég hef alltaf haft mikinn áhuga á því að vera leikstjóri og stefni jafnvel á það seinna meir, það er frábært að vinna með Atla Rafni hann er algjör fagmaður og ég get lært mikið af honum,“ segir Oddur.

Næsta leikár Þjóðleikhússins var kynnt í síðustu viku og má búast við virkilega spennandi vetri en fjöldi verka er nú þegar komið í vinnslu.

„Þetta eru virkilega spennandi tímar. Ásamt því að vera aðstoðarleikstjóri í Djöflaeyjunni kem ég til með að leika einleik í skemmtilegu verki sem nefnist Lofthræddi örninn Örvar, verkið fjallar að miklu leyti um það hvernig það er að takast á við og yfirstíga ótta. Verkið er með frekar óhefðbundnu sniði en þetta mun vera farandsýning þar sem við komum jafnvel til með að frumsýna verkið í Vestmanneyjum og fara svo í ferðalag um landið í kjölfarið, við erum að færa Þjóðleikhúsið nær landsbyggðinni og að þessu sinni verða það börnin sem fá að njóta þess,“ segir Oddur spennur fyrir komandi tímum.

Nú styttist óðum í sumarfrí en nóg verður að gera hjá Oddi þar sem hann meðal annars tekur þátt í uppsetningu Icelandic Sagas - The greatest hits, sem sýnt er í Hörpu en á sýningunni er farið yfir fjörutíu Íslendingasögur á aðeins sjötíu og fimm mínútum.

„Þetta verður skemmtilegt sumar. Ég ákvað að skella mér í smá aukavinnu og kem inn í sýninguna í júlí. Svo ætla ég líka að reyna að nýta sumarið í það að ferðast, fara á Bræðsluna og njóta lífsins,“ segir Oddur brosandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.