Bíó og sjónvarp

Ferlið var rússíbani

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Elliott Crosset Hove prýðir fyrstu stilluna úr myndinni Vetrarbræður.
Elliott Crosset Hove prýðir fyrstu stilluna úr myndinni Vetrarbræður. Mynd/Maria Von Hausswolff.
„Ferlið var rússíbani, aðalleikarinn minn slasaðist illa í tökum og við vorum útataðir í kalki og leðju mestallan tímann. En þetta var spennandi og áhugavert ferli og erum við mjög ánægð með útkomuna og hlökkum til að senda Vetrarbræður út í heiminn,“ segir Hlynur Pálmason, leikstjóri og handritshöfundur, spurður út í kvikmyndina Vetrarbræður sem væntanleg er í kvikmyndahús snemma næsta árs.

Á bak við myndina er sterkt og samheldið teymi sem einnig hefur unnið saman að fyrri myndum Hlyns. Myndin er framleidd af Julie Waltersdorph Hansen hjá Masterplan Pictures í Danmörku í meðframleiðslu með Antoni Mána Svanssyni fyrir Join Motion Pictures á Íslandi.

Kvikmyndin Vetrarbræður er fyrsta mynd Hlyns í fullri lengd og er hún öll tekin upp í verkamannabyggð á köldum vetri með dönskum leikurum. Tökum er lokið og er stefnt á að klára eftirvinnsluna í haust svo mögulegt sé að frumsýna seint á árinu eða snemma á næsta ári. Meðal leikara í myndinni er stórleikarinn Lars Mikkelsen en hann er þekktur fyrir hlutverk sitt í hinum geysivinsælu þáttaröðum House of Cards og Borgen.

Hlynur útskrifaðist frá Danska kvikmyndaskólanum árið 2013.
„Vetrarbræður gerist í einangraðri verkamannabyggð á köldum vetri, myndin segir frá bræðrunum Emil og Johan og þeirra venjum og við verðum vitni að því er ofbeldisfullar deilur brjótast út milli bræðranna og annarrar fjölskyldu á vinnustaðnum. Fókusinn er á yngri bróðurnum, Emil, og þörf hans fyrir að vera elskaður og þráður,“ segir Hlynur.

Þrátt fyrir að Hlynur hafi ekki verið áberandi á Íslandi upp á síðkastið er hann talinn vera einn efnilegasti ungi leikstjórinn í Danmörku en hann útskrifaðist frá Danska kvikmyndaskólanum árið 2013. Útskriftarverkefni hans var stuttmyndin Málarinn, með Ingvari E. Sigurðssyni í aðalhlutverki. Myndin hlaut einróma lof og var til að mynda valin besta stuttmyndin á RIFF sem og besta danska stuttmyndin á alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Óðinsvéum en þannig komst hún í forval fyrir Óskarsverðlaunin. Þá hefur stuttmynd Hlyns, Sjö bátar, einnig vakið mikla athygli og hlotið nokkrar alþjóðlegar viðurkenningar síðan hún var heimsfrumsýnd á hinni virtu alþjóðlegu kvikmyndahátíð TIFF í Toronto.

Fram undan er nóg um að vera hjá Hlyni en hann er meðal annars að fara af stað með nýja íslenska mynd sem hann kemur til með að taka alfarið upp á Íslandi með íslenskum leikurum.

„Næsta verkefni okkar er íslensk kvikmynd í fullri lengd sem heitir Hvítur, hvítur dagur en það verður nútíma „mystery thriller“. Því miður get ég ekki sagt meira á þessum tímapunkti,“ segir Hlynur spenntur fyrir komandi tímum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.