Erlent

Snúa aftur til Fort McMurray eftir tæpan mánuð

Samúel Karl Ólafsson skrifar
Viðbragðsaðilar tóku vel á móti íbúunum.
Viðbragðsaðilar tóku vel á móti íbúunum. Vísir/AFP
Þúsundir íbúa sem flýja þurftu bæinn Fort McMurray í Kanada í síðasta mánuði sneru aftur í dag. Íbúarnir munu snúa aftur á næstu fjórum dögum en enn eru þrjú hverfi lokuð þar sem skemmdir þar voru gífurlega miklar. Búið er að setja vant aftur á bæinn en ekki er óhætt að drekka það.

Af þeim 88 þúsundum sem þurftu að flýja bæinn er þau heppin sem koma einungis að vondri lykt frá ónýtum matvælum. Allt í allt er talið að um tíu prósent húsa í bænum hafi orðið skógareldunum sem herjuðu á bæinn og nærliggjandi umhverfi að bráð.

Einn íbúi sem CBC ræddi við segir eldinn hafa brunnið nánast að þröskuldinum hjá sér og húsið hafi sloppið. Hús hennar var einungis eitt af fjórum við götuna sem brann ekki til kaldra kola.

Íbúar eru beðnir um að taka með sér matvæli, lyf og vatn fyrir um tvær vikur. Undanfarið hefur verið unnið að því að koma verslunum, bönkum og öðrum þjónustustöðum aftur á laggirnar en flugvöllur Fort McMurray hefur ekki verið opnaður, né sjúkrahús bæjarins. Þá þarf einhver tími að líða svo hægt verði að hefja sorphirðu að nýju.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×