Fótbolti

Alfreð: Við vitum að þetta var dapurt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Framherjinn Alfreð Finnbogason var að vonum ekki kátur með leik íslenska liðsins í Osló í kvöld.

„Þetta var frekar dapurt. Við vitum það best sjálfir. Við höfum núna tvær vikur til þess að setja okkur í stand,“ segir Alfreð en Ísland nær sjaldan að sýna sitt besta í vináttulandsleikjunum.

„Það hélt bara áfram í kvöld. Við náum ekki alveg að rífa okkur upp. Er við slökum á þrjú til fimm prósent þá erum við langt frá okkar besta. Það sást í dag.“

Sjá einnig: Umfjöllun: Noregur - Ísland 3-2 | Reiðarslag í Noregi

Mörk Íslands komu eftir horn og víti. Það var lítið bit í sóknarleiknum í dag.

„Sóknarleikurinn var slakur rétt eins og varnarleikurinn. Það var of langt á milli lína. Manni líður eins og við séum einum færri í svona leik. Við vorum ekki nógu samstilltir,“ segir Alfreð en er hann ánægður með hvernig hann nýtti sitt tækifæri í dag?

„Nei, ég held að enginn sé ánægður eftir svona leik. Þetta er lið sem við eigum að vinna. Það jákvæða er að menn fá spilmínútur. Það er ekki gott að við höfum spilað illa en við ætlum ekki að missa hausinn yfir því.

„Við þurfum að skerpa á nokkrum hlutum eftir að hafa æft mikið og þétt. Menn voru aðeins þungir. Tíminn er með okkur og við verðum að hafa trú á því að við séum að gera rétt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×