Nokkrum mánuðum og vikum síðar hafa aðstæður fjölmargra breyst og þurfa að losna við miðana. Sumir keyptu einfaldlega of marga miða en aðrir eiga ekki lengur kost á því að komast til Frakklands.

„Fólk sótti um of marga miða. Það er alveg ljóst,“ segir Þór Bæring Ólafsson hjá Gamanferðum sem hefur mikla reynslu af ferðalögum utan á íþróttaviðburði. Margir hafi nýtt hámarkið, keypt fjóra miða en eigi nú í erfiðleikum með að koma þeim út eða fá endurgreidda.
Allir miðar sem keyptir voru í gegnum fyrrnefnt ferli eru skráðir á kaupanda, hvort sem sá keypti einn miða eða fjóra. Í mótsreglum UEFA kemur skýrt fram að sá sem skráður er fyrir miðanum verði að vera með í för til að fá aðgang að leikvanginum. Þannig geti Jón Jónsson, sem á miða á leik á EM, ekki selt Sigurði Sigurðssyni miðann nema Jón, sem merktur er fyrir miðanum, sé með í för þegar Sigurður fer inn á leikvanginn.
Strangar reglur UEFA má rekja til tveggja þátta. Annars vegar skýrrar stefnu er varða að koma í veg fyrir að þriðji aðili græði á endursölu miða, eins og er tilfellið á síðum á borð við Viago og þekkist stundum á Bland.is hér á landi en einnig á götunum í kringum leikvanginn nokkrum klukkustundum fyrir leik. Hins vegar eru Frakkar á nálum vegna hryðjuverkanna í París í nóvember síðastliðnum og gæta fyllsta öryggis í aðdraganda mótsins.

Þór segir reglurnar ekki nýjar af nálinni. Í stærstu deildum Evrópu, í Meistaradeildinni og öðrum stórmótum séu þessar reglur alltaf fyrir hendi. Þeim sé hins vegar ekki framfylgt enda væri það ómögulegt.
„Líkurnar á því að þeir skoði alla miðana eru engar,“ segir Þór. Slíkt myndi skapa öngþveiti í mannhafinu sem reynir að komast inn á leikvanginn. Hins vegar hafi hann heyrt, þegar dregið var í riðla fyrir EM í desember, að gerðar yrðu stykkprufur. Þá voru hryðjuverkin í París nýafstaðinn og mikil áhersla á öryggismál, og er enn.
„En ætli það verði tékkað á leikjum Íslands? Eða á leikjum hjá stóru þjóðunum?“ segir Þór og telur líklegra að hið síðarnefnda verði niðurstaðan. Ómögulegt sé að fullyrða um það. Hann var sjálfur á úrslitaleiknum í Evrópudeildinni á dögunum þar sem sömu reglur giltu varðandi það að kaupandi miða þyfti að vera á staðnum. Þegar til kastanna kom voru miðarnir ekkert skoðaðir.

Í Facebook-hópnum Ferðagrúppa fyrir EM 2016 reyna fjölmargir á hverjum degi að selja miða og einnig eru einhverjir í leit að miðum. Vandamálið er hins vegar að oftar en ekki verður seljandi miðans ekki á svæðinu þegar leikurinn fer fram. Enginn vill kaupa miða vitandi að miðinn veitir ekki aðgang að leiknum.
Þór segir að líkurnar á því að íslenskur stuðningsmaður á leið á landsleik Íslands á EM verði stöðvaður, miði hans skoðaður og honum meinaður aðgangur vegna fjarveru skráðs miðahafa séu litlar. Ef fólk mætir á völlinn bara pollrólegt, ekki ofurölvi eða með læti, séu líkurnar enn minni. Komi hins vegar eitthvað upp á meðan á leik stendur í kringum sæti viðkomandi gæti það breytt einhverju. Þá verði sömuleiðis að hafa í huga í ljós hryðjuverkanna í nóvember að Frakkar setja öryggi í fyrirrúm. Þeir muni hins vegar aldrei skoða alla miðana.
„Ég prívat og persónulega myndi bara kaupa miða á vef UEFA,“ segir Þór og bendir á að þótt líkurnar séu afar litlar þá sé það varla áhættunnar virði fyrir ekki hærri upphæð. „Maður veit aldrei.“ Enn séu miðar til sölu á leikina gegn Ungverjalandi og Austurríki á vef UEFA.
Um 600 manns eru á leið til Frakklands á vegum Gamanferða og svipaður fjöldi á vegum ferðaskrifstofunnar Vita. Íslendingar sóttu um í kringum 25 þúsund miða en KSÍ gerir ráð fyrir allt 15-20 þúsund Íslendingum í Frakklandi í tengslum við mótið.