Erlent

Segir Repúblikönum að fylgja samviskunni varðandi Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Paul Ryan.
Paul Ryan. Vísir/Getty
Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, segir að þingmenn Repúblikana eigi að fylgja samvisku sinni varðandi hvort þeir eigi að styðja Donald Trump, forsetaefni flokksins, eða ekki. Ummæli hans eru sögð varpa ljósi á hve stirt samband Trump og forystu flokksins er. Sjálfur hefur Ryan sagst styðja Trump, en hann hefur fordæmt forsetaframbjóðandann fyrir rasísk ummæli og fleira.

Þingmenn flokksins hafa áhyggjur af því að ummæli og aðgerðir hins umdeilda Trump muni koma í veg fyrir endurkjör þeirra.

„Það síðasta sem ég myndi gera er að segja einhverjum að gera eitthvað sem er gegn samvisku þeirra,“ er haft eftir Ryan á vef Reuters. „Auðvitað myndi ég ekki gera það.“

Trump sendi leiðtogum Repúblikana tóninn í vikunni og sagði þeim að hætta að setja út á sig. Annars myndi hann mögulega fara í framboð til forseta sem sjálfstæður frambjóðandi.

AP fréttaveitan segir að Trump vilji treysta á umgjörð Repúblikana fyrir kosningabaráttuna í haust. Hann stefni því að því að brúa bilið á milli sín og forystu flokksins. Forsvarsmenn framboðs Trump segjast hafa um 30 launaða starfsmenn víða um Bandaríkin. Repúblikanaflokkurinn er hins vegar með 483 starfsmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×