Fótbolti

Aron við Kolla: Viltu ekki klára að lýsa leiknum?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Einar og Kolbeinn á blaðamannafundinum í dag.
Aron Einar og Kolbeinn á blaðamannafundinum í dag. vísir/to
Kolbeinn Sigþórsson, framherji íslenska landsliðsins, átti einn sprett gegn Portúgal í jafnteflisleiknum í Saint-Étienne á þriðjudaginn sem var sá fljótasti af öllum í fyrstu umferð riðlakeppninnar.

Kolbeinn er þekktur fyrir markaskorun og að vera duglegur en kannski ekki beint fyrir að vera fljótasti leikmaður Evrópu. Hann var spurður hvort þetta hefði komið honum á óvart.

„Að sjálfsögðu ekki,“ sagði Kolli og brosti. „Jú, auðvitað kom það mér pínulítið á óvart. Ég vissi ekki að það væri verið að mæla hraðann. Ég fékk bara að heyra þetta eftir leik. Að sjálfsögðu er gaman að þessu.“

Kolbeinn var beðinn um að segja nánar frá þessum spretti: „Ég held að ég hafi tekið þennan sprett í fyrri hálfleik við hornfánann. Boltinn fór í Portúgalann og ég hefði getað látið boltann fara í horn en ég tók sprettinn og sparkaði boltanum til baka því ég hélt að Jói væri að koma,“ sagði Kolbeinn og þá greip Aron Einar orðið.

„Viltu ekki bara klára að lýsa leiknum?“ sagði fyrirliðinn hress en bætti svo við að þetta kæmi honum ekkert á óvart.

„Það er alltaf keyrsla og kraftur í Kolla. Þetta kom okkur þannig séð ekkert á óvart því hann var í stuði í leiknum og það var akkurat það sem við þurfutm. Hann er leiðtogi sem neglir liðið áfram. Hann sýnir hvernig hugarfari menn eiga að mæta með í þennan leik,“ sagði Aron Einar Gunnarsson.

 

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×