Skoðun

Leiðin að betri heilbrigðisþjónustu

Oddný Harðardóttir skrifar
Við í Samfylkingunni viljum leiða stærsta verkefni næsta kjörtímabils sem verður endurreisn heilbrigðisþjónustunnar. Við veljum leið samhjálpar, umhyggju og jöfnuðar í stað samkeppni um sjúklinga.

Hrunið og kreppan sem henni fylgdi leiddi óhjákvæmilega til niðurskurðar í heilbrigðismálum, en hnignun heilbrigðiskerfisins hófst því miður löngu fyrir hrun. Skortur á fjárfestingum og rekstrarfé blasir við hvert sem litið er. Þótt sjúklingum hafi á sama tíma fjölgað vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar, hefur uppbygging sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva ekki fylgt þeirri þróun undanfarna áratugi. Aftur á móti hefur hlutur sjúklinga í rekstri kerfisins vaxið jafnt og þétt.

En sjúklingar eiga ekki að þurfa að taka upp veskið þegar þeir þurfa á læknishjálp að halda, og Íslendingar munu seint sætta sig við lakari og dýrari þjónustu en þekkist hjá nágrannaþjóðum okkar. Þess vegna viljum við í Samfylkingunni að heilbrigðisþjónustan verði í framtíðinni gjaldfrjáls.

Svo að heilbrigðisþjónustan verði betri viljum við jafnframt:

  • Efla heilsugæsluna um allt land.
  • Hefja byggingu nýs Landspítala við Hringbraut.
  • Eyða löngum biðlistum eftir nauðsynlegum aðgerðum hratt og örugglega.
  • Uppbyggingu hjúkrunarheimila fyrir aldraða og langveika þar sem búið er vel að fólki með persónulegri þjónustu.
  • Betra aðgengi að geð- og sálfræðiþjónustu með áherslu á börn og ungt fólk.
  • Og lögfesta notendastýrða persónubundna aðstoð.
Markmiðið er skýrt því öll viljum við betri heilbrigðisþjónustu, en það skiptir máli hvernig verkefnið verður leyst. Við vitum að með gildi og forgangsröðun Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands að leiðarljósi, munum við gera það vel.




Skoðun

Sjá meira


×