Erlent

Mölvaði rúðu með grjóti til að bjarga hundi úr sjóðandi heitum bíl

Birgir Olgeirsson skrifar
Maðurinn er sagður hafa bjargað lífi hundsins.
Maðurinn er sagður hafa bjargað lífi hundsins. Vísir/Facebook
Þetta myndband hefur verið að vekja mikla athygli á netinu en þar sést maður bjarga hundi sem hafði verið lokaður inni í bíl í steikjandi hita í Grand Bend í Ontario-fylki í Kanada á laugardag.

Maðurinn notaðist við grjót til að brjóta rúðu í bílnum til að komast inn í bílinn en lofthiti fór upp í þrjátíu stig á svæðinu á þessum degi, sem þýðir að hitastigið inni í bílnum gæti hafa verið um fjörutíu gráður. Maðurinn þurfti nokkrar tilraunir en tókst þó ætlunarverk sitt að lokum.

Bjargvætturinn hefur ekki verið nafngreindur en sá sem tók myndbandið, Will Costa, var á tónlistarhátíð á svæðinu þegar tilkynnt var í hátalarakerfið að hundur væri fastur inni í sjóðandi heitum bíl og var reynt að hafa upp á eiganda bílsins til að hleypa honum út. Enginn svaraði kallinu en eigandi bílsins lét sjá sig um fimmtíu mínútum eftir að hundinum hafði verið bjargað úr bílnum og telja margir að lífi hans hafi verið bjargað með þessari aðgerð.

Lögreglan er sögð hafa teið hundinn í sína vörslu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×