Fótbolti

Aron Einar: Sérsveitarmaður mætti með sniper-riffil með okkur í golf

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Einar Gunnarsson í rólegheitum á hótelinu í dag.
Aron Einar Gunnarsson í rólegheitum á hótelinu í dag. vísir/vilhelm
„Þetta er voða fínt hótel og er útsýnið gott. Hér höfum við allt til alls og við erum búnir að koma okkur vel fyrir,“ sagði Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði landsliðsins í fótbolta, við Vísi á hittingi leikmanna og fjölmiðlamanna á liðshóteli strákanna okkar í dag.

Fjölmiðlamenn sem fylgja liðinu eftir fengu að vera á hótelinu í klukkustund þar sem þeir skoðuðu sig um og tóku viðtöl við strákana. Á hótelinu er allt til alls fyrir strákana og fyrirliðinn hefur það gott.

Sjá einnig:Ljósmyndari Visis myndaði strákana okkar í bak og fyrir á hótelinu í Annecy

„Menn geta spilað púl og fúsball. Svo er sundlaug og allt til sem maður getur óskað sér. Það verður leikið þétt þegar við förum af stað þannig það er gott að menn geti hvílt sig vel og náð góðri endurheimt sem við ættum að ná hér,“ sagði Aron Einar.

Á annað hundrað öryggisvarða; bæði lögregla og sérsveitarmenn, koma að því að passa upp á strákana okkar.

„Gæslan í kringum þetta er svakaleg. Þó að það sé hellidemba úti eru alltaf tveir verðir að rölta í kringum hótelið. Maður hefur aldrei verið í svona umhverfi áður. Það er gaman að vera hluti af þessu og manni líður eins og það sér eitthvað í gangi,“ sagði fyrirliðinn.

Sjá einnig:Ragnar: Jack Bauer með bakpoka fullan af vopnum sem ver okkur

En er þessi gæsla ekki bara áminning um að menn séu virklega hræddir við að eitthvað geti gerst?

„Bæði og. Þetta er aðallega fyrirbyggjandi. Menn hafa bara varann á sem er auðvitað gott. Núna fyrst er maður hættur að taka eftir þessum sérsveitargaurum sem fylgja okkur út um allt. Þetta er samt spes. Við fórum í golf um daginn og þar mætti einn sérsveitarmaðurinn með sniper-riffill í golfbíl. Það er ekkert eðlilegt,“ sagði Aron Einar og hló.

En gat hann púttað með rifflinum? „Það var eitthvað eitthvað minna um það,“ sagði fyrirliðinn brosandi að lokum.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir

Emil: Þetta er bara kjaftæði

Segir fréttir af meiðslum sínum rangar. Hann segir einnig að hótellífið er orðið venjulegt fyrir sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×