Skoðun

Stefna í ferðamálum er skýr

Ragnheiður Elín Árnadóttir skrifar
Í grein í Fréttablaðinu 27. júní opinberar nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar áberandi þekkingarleysi á stöðu ferðamála og þeim aðgerðum sem ráðist hefur verið í á undanförnum árum. Þær má m.a. sjá í ítarlegri skýrslu sem ég lagði fyrir Alþingi í vor.

Ferðaþjónustan hefur á síðustu fimm árum vaxið gríðarlega og langt umfram allar spár, en vöxturinn frá 2011 er 121 prósent. Þessi staða færir okkur bæði mikil tækifæri en um leið stórar áskoranir. Eitt af því sem við sáum fljótt var að fyrri ríkisstjórn hafði t.a.m. skort heildstæða stefnumörkun fyrir málaflokkinn.

Við hófum stefnumótunarvinnu árið 2014 í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar og lukum verkinu með Vegvísi í ferðaþjónustu. Með því náðum við utan um viðfangsefnið – og það sem meira er, náðum fólki saman að borðinu. Stjórnstöðin er samræmingaraðilinn, Vegvísir er stefnan. Yfir 1.000 manns komu að gerð Vegvísis og í stjórn Stjórnstöðvar sitja fjórir ráðherrar, fulltrúar Samtaka ferðaþjónustunnar og fulltrúar sveitarfélaga. Vinna Stjórnstöðvar hefur verið markviss og hefur þegar skilað miklum árangri.

Sú ríkisstjórn sem formaður Samfylkingarinnar gegndi embætti fjármálaráðherra í setti 650 milljónir í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Núverandi ríkisstjórn hefur veitt tæplega 2,5 milljörðum í sjóðinn. Alls var 350 milljónum varið í þjónustuhús og bætta salernisaðstöðu og 380 milljónum til verkefna til bætts öryggis. Ríkið eitt og sér fjárfesti fyrir 850 milljónir í sínum innviðum vorið 2015. Við höfum komið til móts við sveitarfélögin með því að lækka mótframlag til svæða í eigu og umsjón sveitarfélaga og einkaaðila úr 50 prósent í tuttugu prósent.



Ferðamenn skila okkur gríðarlegum skatttekjum í ríkissjóð. Aukningin í virðisaukaskatttekjum ríkisins eingöngu af kortaveltu erlendra ferðamanna milli 2014 og 2015, var 10 milljarðar, fór úr 15 milljörðum í 25. Ferðamenn leggja verulegar fjárhæðir til þjóðarbúsins og að kalla eftir skattahækkunum eins og formaður Samfylkingarinnar leggur til að hætti vinstri manna er óþarfi þar sem tekjurnar sem við þegar fáum eru umtalsverðar.

Ef við vinnum áfram samhent og samstillt leggjum við grunn að áframhaldandi velgengni íslenskrar ferðaþjónustu.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Á­kall um kjark

Guðbjörg Pálsdóttir,Kolbrún Halldórsdóttir,Steinunn Þórðardóttir,Svana Helen Björnsdóttir skrifar

Sjá meira


×