Skoðun

Eldi á villtum laxastofnum

Jón Viðar Viðarsson skrifar
Borið hefur á frekar ómaklegri gagnrýni í garð fiskeldisframleiðenda upp á síðkastið. Gagnrýnin hefur verið tvíþætt, þá er annars vegar verið að að gagnrýna fiskeldið sjálft og hins vegar starfsmenn þess. Ég tel að fjölmiðlar séu ekki vettvangur fyrir slíka gagnrýni og sé frekar til þess að skaða orðspor beggja aðila. Heldur þarf að leiða saman hagsmunaaðila þar sem málefni eru borin upp og fundinn farvegur að viðeigandi lausn.

Jákvæðu áhrifin

Stóru laxeldisfyrirtækin eiga hrós skilið fyrir þann dugnað og úthald sem þau hafa sýnt. Þeir eru búnir að skapa mikið af heilsársstörfum sem stjórnast ekki af árstíðasveiflum. Ég tel að eldi geti verið liður í því að minnka atvinnuleysi og auka fjölbreytni á afskekktustu stöðum þessa lands. Fjölbreytt eignarhald, eins og t.d. að útlendingar eigi hlut í eldinu hér heima, tel ég að sé mjög jákvætt því þar getum við sótt okkur þekkingu og aukið aðgang okkar að mörkuðum.

Skapi sér stefnu til framtíðar

Við Íslendingar glímum við háan flutningskostnað. Þá sé skynsamlegt að við sköpum okkur sérstöðu í stað þess að vera að keppa við stór framleiðslulönd á borð við Noreg, Færeyjar og Kanada. Með slíkri sérstöðu getum við aukið við verðmætasköpun á fiskinum og selt á mörkuðum sem eru tilbúnir að greiða hátt verð fyrir slíka vöru. Hátt kílóverð lækkar hlutfall flutningskostnaðar í heildarverðinu. Ég tel að við ættum að nýta villta íslenska laxastofna og stunda kynbætur á þeim. Með því að velja góða stofna og ala þá ekki of langt frá villtum stofnum sköpum við okkur mikla sérstöðu í mörgu tilliti. Með þessu gætum við skapað okkur jafnvel nýjan staðal og markaðssett upprunann og hreinleikann. Ég tel að þetta sé vinna sem fyrirtækin ættu að huga að nú þegar talsverð reynsla er komin í laxeldið.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×