Skoðun

Eru list- og verkgreinar ennþá aukagreinar í skólanum?

Ólafur Guðmundsson skrifar
Námsgreinar skólans hafa löngum haft misjafnt vægi og hefð virðist vera fyrir því að álíta ákveðnar greinar mikilvægari en aðrar. Flokkun greina eftir mikilvægi er lífseig sem kemur m.a. fram í mismiklu rými þeirra í stundatöflum skólanna. Í rannsókn um starfshætti í grunnskólum við upphaf 21. aldar sem unnin var við Menntavísindasvið Háskóla Íslands undir stjórn Gerðar G. Óskarsdóttur og gefin var út árið 2014 kemur fram að einungis 69% almennra kennara telja list- og verkgreinar jafn mikilvægar og aðrar greinar. Þetta er athyglisvert þar sem gert er ráð fyrir list- og verkgreinum í námskrám skólanna. Það kemur einnig talsvert á óvart að 86% kennara í list- og verkgreinum telja þær ekki jafn mikilvægar og aðrar greinar.

Svipað virðist vera uppi á teningnum hjá nemendum. Í rannsókninni kemur fram að nemendur í 7. bekk telja fimm list- og verkgreinar meðal sjö vinsælustu námsgreina skólans. Þegar hins vegar kemur að því að mæla mikilvægi þeirra meta nemendur í þessum sama árgangi list- og verkgreinar síður mikilvægar. Í 10. bekk eru listgreinar ekki eins vinsælar. Þar er vinsældadreifingin jafnari meðal allra greina skólans. Mikilvægi þeirra telja nemendur hins vegar svipað og í 7. bekk, þ.e. list- og verkgreinar eru metnar síður mikilvægar en bóknámsgreinarnar.

Hvers vegna er þetta svo? Ef marka má viðhorf nemenda virðast þessar greinar skemmtilegar en greinilegt er að þeim finnst þær ekki eins mikilvægar og bóknámsgreinar. Áhugavert er því að velta fyrir sér hvað er á bak við þær tölur sem birtast í umræddri rannsókn.

Erum við að glíma við gömul viðhorf?

Hvað veldur því til dæmis að list- og verkgreinar eru ekki vinsælli í unglingadeild en raun ber vitni? Er það vegna þess að þær eru þar yfirleitt ekki í boði nema sem valgreinar, eða eru nemendur á þessu aldursstigi farnir að huga að því námi sem þeir ætla sér að fara í að loknum grunnskóla? Telja þeir að list- og verkgreinar skipti ekki eins miklu máli fyrir undirbúning fyrir framhaldsskólanám? Einnig má velta fyrir sér hvers vegna kennarar telja ekki allar greinar skólans jafn mikilvægar. Ætla mætti að búið sé að koma því á framfæri að list- og verkgreinar séu ekki síður mikilvægar í uppeldi og menntun nemenda en aðrar greinar skólans þar sem þær eru í námskrám allra grunnskóla, í stundatöflum og skyldugreinar allt frá fyrsta og öðrum bekk.

Það er líka ærið umhugsunarefni hvers vegna list- og verkgreinakennarar telji þeirra greinar ekki jafn mikilvægar og aðrar greinar. Erum við ef til vill enn að glíma við sömu viðhorf og áður réðu ríkjum þegar list- og verkgreinar voru aukagreinar og kenndar utan almennrar stundatöflu? Getur verið að í þessari rannsókn endurspeglist þau lífseigu viðhorf að klassískar bóknámsgreinar séu hinar mikilvægu greinar skólans og list- og verkgreinar frekar val eða uppfylling?

Greiningu á mikilvægi námsgreina í skólakerfinu má eflaust vinna með ýmsu móti og út frá ýmsum forsendum. Við gætum sett dæmið þannig upp að mikilvægustu greinarnar séu þær sem koma að mestum notum við menntun og störf framtíðinni. Ef við notum þessa aðferð verður að ákveða hvers konar menntun átt er við. Er það háskólanám, er það verknám, er það listnám eða blanda af þessu öllu? Í bóklegu háskólanámi er nokkuð ljóst að miða ber við þær greinar sem hjálpa okkur þar, bóknámsgreinarnar. Ef það er hins vegar iðn- eða listnám verðum við að sjálfsögðu að miða við þær greinar líka og þar ættu list- og verkgreinarnar sannarlega að vera nauðsynlegar.

Ef við hins vegar setjum dæmið upp með öðrum hætti og miðum við að menntun gangi ekki eingöngu út á undirbúning fyrir frekara nám og störf , heldur fyrir lífið, það að vera manneskja í samfélagi, þá myndi forgangsröðunin sennilega breytast.

Ímyndunaraflið fangað og unnið með óreiðu hugans

Hvað er það er sem list- og verkgreinar gefa nemendum og menntun þeirra? Það er staðreynd að list- og verkgreinar bjóða upp á margháttaða reynslu og hafa ótal margt fram að færa sem aðrar greinar hafa ekki. Þess vegna hafa þær verið gerðar að skyldunámsgreinum. Það er líka staðreynd að án list- og verkgreina væri skólastarfið ekki eins skemmtilegt. Þær gera námið fjölbreyttara og ættu þar með að nýtast til að vinna gegn námsleiða. Í list- og verkgreinum vinna nemendur með sjálfsmynd, tilfinningar, samskipti, skynjun, framkvæmd hugmynda og fagurfræði, svo eitthvað sé nefnt. Fyrir tilstuðlan færni í listrænni tjáningu og handverki geta aðrar greinar tekið upp kennsluaðferðir byggðar á þessum greinum. Og það er líka vegna list- og verkgreina að félagslíf, skemmtanir og sýningar í skólunum eru mögulegar. Eru það ekki þessar greinar sem alltaf eru kallaðar til þegar fagna þarf einhverju eða halda upp á eitthvað?

Í list- og verkgreinum eru hefðir fyrir vinnubrögðum sem krefjast annars af nemandanum en bóknámsgreinar. Þau byggja á leiðum til að fanga ímyndunaraflið og finna því það form sem hentar. Í listrænni sköpun þarf að ná utan um það sem listamaðurinn vill tjá sig um. Það þarf að vinna með óreiðu hugans og tilfinninganna og hið tilviljanakennda í tilverunni til að komast að því hvar andagiftin liggur. Að því loknu þarf að vinna markvisst að því að finna hugmyndinni eða tilfinningunni form. Þetta ferli er oft skipulagt í þaula og krefst vandaðra tæknilegra vinnubragða. Listsköpun og handverk er því oft blanda að því er virðist af tilviljanakenndri leitandi vinnu og þaulskipulagðri vinnu við að útfæra verkið.

Alhliða þroski nauðsynlegur

Það er þarna sem hið skapandi listræna ferli getur haft áhrif á allt skólastarf. Allt nám og öll kennsla er leit að leiðum til að tjá hugsanir, smíða kenningar og þróa aðferðir sem felur í sér að það er ekki endilega niðurstaða ferlisins sem er aðalatriðið, heldur ferlið sjálft. Allir hlutar þess eru mikilvægir. Niðurstaðan er ekki þekkt fyrirfram heldur mótast hún í ferlinu. Hver útkoman verður er háð því hvað lagt er upp með og hvernig ferðalaginu vindur fram. Aðferðafræði list- og verkgreina byggist á leit og óvissu. Sú leit þarf ákveðið rými til að finna sér farveg og lausnir. Það sama á við um allt nám.

Í samfélagi dagsins í dag er mikil þörf á að nemendur spreyti sig viðfangsefnum í fjölbreytilegu samhengi. Bóknámsgreinarnar eru frábærar og nauðsynlegar og gefa mikilvægan grunn á mörgum sviðum. Það gera list- og verkgreinar líka. Þær gefa einstaklingnum tækifæri til að nálgast viðfangsefni sín með öðrum hætti og að vinna með sjálfan sig og aðra á skapandi og eflandi hátt. Það er í þessum greinum sem börn og unglingar prófa og tjá sig um hluti sem þau hafa oft ekki möguleika á að gera annars staðar, sérstaklega á tímum farsíma, tölvuleikja og internetsins. Manneskjan þarfnast alhliða þroska í samfélagi við aðra. Í dag fæst þessi þroski ekki alltaf inni á heimilunum eða með jafningjum eins og áður var, heldur einkum fyrir tilstilli þess skipulagða námsumhverfis sem skólinn veitir. Það er því nauðsynlegt að standa vörð um og efla fjölbreytta menntun og námsumhverfi öllum til handa.




Skoðun

Sjá meira


×