Skoðun

Loftslagsvænn landbúnaður

Sigrún Magnúsdóttir skrifar
Á dögunum skrifuðu undirrituð og Björn Þorsteinsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ) á Hvanneyri, undir tvo samninga um verkefni sem eru hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum. Annar samningurinn snýr að því að fá yfirlit og upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu koldíoxíðs í gróðri og jarðvegi. Hinn samningurinn lýtur að útreikningum á kolefnislosun í landbúnaði. Upplýsingar og gögn frá þessum verkefnum munu gagnast við gerð vegvísis, þar sem stefna og markmið um að útfæra minnkun í losun frá landbúnaði er mótuð í samvinnu við Bændasamtökin.

Það skiptir miklu máli að bæta tölulegar upplýsingar varðandi þátt landbúnaðar og landnotkunar í kolefnislosun og -bindingu hér á landi. Samningarnir við LBHÍ eru þýðingarmikið skref í því að auka vísindaþekkingu innan skólans á þessu sviði um leið og þeir styrkja þessa mikilvægu stoð í stefnu Íslands í loftslagsmálum.

Samvinna

Sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er til þriggja ára og samanstendur af 16 fjölbreyttum verkefnum sem unnin verða í samstarfi við atvinnulífið og stofnanir. Ekki hefur áður verið lagt jafn mikið fé til sérstakra aðgerða í loftslagsmálum hérlendis. Sóknaráætlunin miðar að því að virkja atvinnulíf og stofnanir því loftslagsmál tengjast nær öllum atvinnugreinum. Því þarf samstillt átak til að takast á við þær áskoranir sem eru samfara þeim auk þess sem loftslagsmál hafa gríðarleg áhrif á efnahagslífið.

Mikilvægt er að allir beri ábyrgð í loftlagsmálum, en mikil vakning hefur orðið í samfélaginu um að finna raunhæfar lausnir. Til að vel megi takast og standa undir væntingum þeirra kynslóða sem á eftir okkur koma þarf því að örva og virkja samfélagið, fyrirtæki sem og einstaklinga til þátttöku og aukinnar vitundar. Sóknaráætlunin tekur mið af þess konar samvinnu og má nefna eflingu innviða fyrir rafbíla á landsvísu, átak gegn matarsóun, vegvísi í sjávarútvegi, endurheimt votlendis og loftslagsvænan landbúnað.

Kolefnisútreikningar

Landbúnaður og landnotkun hefur vissulega áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda en þar eru jafnframt tækifæri til að binda koldíoxíð úr andrúmslofti með skógrækt, landgræðslu og fleiri aðgerðum. Nauðsynlegt er að fá betri kortlagningu og útreikninga á hvernig losunin dreifist innan geirans og hvar tækifæri í bindingu liggja svo markmið og áætlanir um samdrátt í losun nái fram að ganga.

Bestu vörslumenn landsins

Bændur gegna miklu hlutverki varðandi endurheimt landgæða og hafa verið ötulir talsmenn þess að græða landið frá fjöru til fjalla. Ríkisstjórnin hefur veitt aukið fjármagn til skógræktar, landgræðslu og endurheimtar votlendis. Fyrr í vor setti ég af stað verkefni um endurheimt votlendis í samræmi við sóknaráætlun í loftslagsmálum og fól Landgræðslu ríkisins framkvæmdina. Verkefnin verða unnin í náinni samvinnu við landeigendur en margir sjá aukna möguleika fyrir svæði sem ekki eru nýtt til búskapar og geta með endurheimt haft aukið útivistargildi, m.a. í fjölbreyttara fuglalífi og fiskgengd.

Þá er skógrækt viðurkennd mótvægisaðgerð gegn uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Margir bændur eiga land sem ekki nýtist við búskapinn og gæti hentað vel til skógræktar. Með skógræktaráætlun skapast möguleikar á nýrri skógarauðlind og sjálfbærni í nýtingu lands samhliða bættri ímynd.

Minna kolefnisfótspor

Framundan eru áskoranir í loftslagsmálum sem þarf að mæta með breyttu og jákvæðu hugarfari. Fjöldi þeirra 175 ríkja sem skrifuðu undir Parísarsamkomulagið styrkir okkur í þeirri trú að þjóðir heims hafi tekið ákvörðun um að hefjast handa við að sporna gegn loftslagsbreytingum. Tillaga um fullgildingu samningsins af Íslands hálfu verður lögð fram á Alþingi að loknu sumarfríi – efndir munu fylgja orðum. Markmiðum Íslands verður fylgt eftir, kolefnisfótsporið þarf að minnka og mun stefna Íslands í loftslagsmálum leiða okkur að loftslagsvænum lausnum og nýsköpun.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×