Skoðun

Guðni Th. stendur með allri þjóðinni

Margrét S. Björnsdóttir skrifar
Það hefur verið áhugavert og í raun traustvekjandi að fylgjast með Guðna Th. Jóhannessyni sagnfræðingi verða á örfáum mánuðum til sem líklegt forsetaefni okkar Íslendinga. Fylgjast með hvernig samfélagssýn hans birtist okkur, sem lítið þekktu hann fyrir. Manns sem sjálfur hefur skarað fram úr, en ofmetnast ekki heldur leggur áherslu á að bæta hlut þeirra sem eiga undir högg að sækja. Barna, aldraðra, fatlaðra eða nýrra Íslendinga sem vilja setjast hér að og eru að fóta sig í nýjum heimi.

Bjartsýnn og glaðsinna hefur hann ferðast um landið, drjúgan hluta kosningabaráttunnar. Haldið opna fundi, heimsótt fyrirtæki, skóla og hjúkrunarstofnanir með lífsförunaut sínum og eiginkonu Elizu Reid.

Áhersla þeirra á að heimsækja eins marga staði úti um land og kostur var, á takmörkuðum tíma, endurspeglar þá sýn Guðna Th. að forseti Íslands eigi að vera fulltrúi allra Íslendinga.

Til góðs fyrir Íslendinga

Meirihluti Íslendinga virðist skynja að þarna fari einstaklingur sem geti bætt okkar samfélag. Ef til vill maður sem getur lagt sitt af mörkum til að sameina þjóðina eftir tæpan áratug sundrungar og sársauka allt of margra. Sársauka tugþúsunda Íslendinga, sem sjálfir eða venslafólk þeirra, missti eigur sínar eða atvinnu í kjölfar mistaka stjórnmála- og bankamanna í aðdraganda hrunsins 2008. Einstaklingur sem hafi “þekkingu og skaphöfn til að stuðla að sátt“, svo notuð séu eigin orð Guðna.

Við sem höfum unnið fyrir hans framboð sem sjálfboðaliðar höfum skynjað kraft hans og hugsjónir um bætt líf öllum til handa. Ég er þess fullviss að nái hann kjöri getur hann stutt okkur sem þjóð til að ná sáttum á ný.

Þess vegna hvet ég alla til að greiða Guðna Th. Jóhannessyni atkvæði sitt þann 25. júní nk.




Skoðun

Sjá meira


×