Skoðun

Stolt

Auðunn Lúthersson skrifar
Hvers vegna fögnum við þegar við skorum? Við erum stolt af Davíð sem sigrar Golíat. Það er eitthvað ótrúlega fallegt við að sjá þann sem er talinn minnimáttar vinna. Þess vegna finnum við fyrir þessari krúttlegu sameiningu. Ég talaði við einhvern gæja í grænmetisdeildinni í Bónus áðan. „Áfram Ísland!“ Geggjað stöff. Þetta sæta kítl í bringunni sem Gummi Ben virðist hafa fundið beina boðleið að, bara með því að vera hann sjálfur.

Það fallega við íþróttir er liðsheild og sameining. Margra ára þrotlaus vinna. Þjálfarar, leikmenn, íþróttafélög og foreldrar sem skutla öllum á milli staða. Að standa við bakið á íþróttamönnunum og styðja þá. Sameiningin er svo falleg.

Sameining er miklu öflugri en þjóðerni og á hvaða fleka jarðkringlunnar við fæddumst. Mannskepnan er ótrúlega flink í að finna leiðir til þess að búa til sameiningu. Sömu fegurð í sameiningu má sjá í því hvernig við syngjum með á Radiohead eða fögnum áramótum. Saman syrgjum við Dumbledore, pælum í því hvernig kjóllinn er á litinn, hermum eftir Hotline Bling dansinum og hlæjum að offeitri bandarískri konu með Chewbacca-grímu.

En samstaða er ekki bara falleg. Hún er nauðsynleg. Þegar ég var sextán ára átti ég nógu erfitt með að finna fótfestu í sjálfum mér. Að bæta ofan á það stríð í heimalandi mínu, að sjá fjölskyldu mína splundrast og brottrekstur frá eina skjólinu í öllum þessum stormavindi er mér óhugsandi.

Land sem að á efni á því að senda 8% þjóðarinnar til Frakklands að horfa á fótbolta hlýtur að geta tekið við fleiri hælisleitendum. Það hlýtur að geta rétt út hjálparhönd þegar þörfin er svona mikil. Ef ekki við, hver þá?

Landsliðið er búið að sanna að þeir séu ekki með “small mentality” í fótbolta. Nú er nauðsynlegt að þjóðin sanni það sömuleiðis.




Skoðun

Sjá meira


×