Skoðun

Við getum – ég get

Kristín Lára Ólafsdóttir skrifar
Alþjóðasamtökin gegn krabbameini (UICC) skora nú á þjóðir heims að taka þátt í að vekja athygli á baráttunni gegn krabbameini undir slagorðunum We Can – I Can eða VIÐ GETUM – ÉG GET.

Fagdeild krabbameinshjúkrunarfræðinga á Íslandi fagnar í ár 20 ára starfsafmæli sínu og stendur fyrir greinaskrifum, í samvinnu við Krabbameinsfélag Íslands, undir heitinu VIÐ GETUM – ÉG GET. Fyrsta greinin birtist í Fréttablaðinu 4. febrúar sem er alþjóðlegi krabbameinsdagurinn. Í þessari fjórðu grein er fjallað um sjálfræði einstaklingsins og rétt hans til að hafa áhrif á eigin meðferð og umönnun.

Þegar við heyrum orðið krabbamein dettur mörgum fyrst í hug dauði en með síaukinni þróun í meðferð og tækni er greining krabbameins ekki sami dauðadómur og fyrir nokkrum áratugum. Nú bæði læknast fleiri og sífellt fleiri lifa lengur en áður með ólæknandi krabbamein, sem þýðir að sjúkdómurinn er orðinn langvinnur sjúkdómur sem einstaklingar þurfa að læra að lifa með.

Mikilvæg umræða

Það er alltaf mikilvægt að einstaklingar sem greinast með krabbamein og fjölskyldur þeirra fái upplýsingar um sjúkdóminn, horfur og meðferð sem hægt er að veita til að lækna sjúkdóminn, lengja líf, draga úr einkennum og bæta líðan og lífsgæði. Það er líka mikilvægt að þeir sem hafa greinst með krabbamein hugsi og ræði bæði við fjölskyldu sína og heilbrigðisstarfsfólk um hvað þeim er mikilvægt og hvaða óskir þeir hafa varðandi eigin meðferð. Þegar sjúkdómurinn er ólæknandi þá verður þessi umræða enn mikilvægari og snýst þá um hversu langt einstaklingurinn vill ganga varðandi meðferð, hvað hann vill leggja áherslu á varðandi lífsgæði sín, hvað hann vill forðast að gerist og hvernig hann vilji láta haga málum eftir andlát sitt.

Eðlilegur hluti af þjónustu

Það ætti að vera eðlilegur hluti af þjónustu og umönnun einstaklinga með krabbamein að þeir fái reglulega tækifæri til að ræða óskir sínar og þarfir varðandi framtíðarmeðferð og meðferðarmarkmið við heilbrigðisstarfsfólk. Rannsóknir hafa sýnt að þessi umræða fer oft ekki fram vegna þess að heilbrigðisstarfsfólki, sjúklingum og almenningi finnst hún erfið og telja hana jafnvel draga úr von og valda frekari vanlíðan. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt fram á að markviss umræða um þessi mál geti eflt raunhæfa von, bætt skilning og líðan sjúklings og aðstandenda auk þess að líklegra er að sjúklingurinn fái þá meðferð sem hann óskar. Ef þessi umræða fer fram eru sjúklingar og aðstandendur betur undirbúnir þegar sjúkdómurinn versnar og hún getur jafnframt stuðlað að betri líðan aðstandenda eftir andlát.

VIÐ GETUM – haft áhrif á umræðuna og opnað samtalið um hvað er okkur mikilvægt og hvernig við getum undirbúið dauða okkar.

ÉG GET – rætt við fjölskyldu mína um hvað er mér mikilvægt og hvað ég myndi vilja forðast ef ég veiktist alvarlega eða slasaðist.

Bernacki, R. E., og Block, S. D. (2014). Communication about serious illness care goals: a review and synthesis of best practices. JAMA Intern Med, 174(12), 1994-2003.



Kristín Lára Ólafsdóttir. (2016). Samtal líknarhjúkrunarfræðinga við sjúklinga með nýgreint útbreitt lungnakrabbamein um áætlun um meðferðarmarkmið. Reynsla sjúklinga og aðstandenda. https://skemman.is/item/view/1946/23880



World Cancer Day http://www.worldcancerday.org/

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.

 




Skoðun

Skoðun

Á­kall um kjark

Guðbjörg Pálsdóttir,Kolbrún Halldórsdóttir,Steinunn Þórðardóttir,Svana Helen Björnsdóttir skrifar

Sjá meira


×