Erlent

Lionel Messi fékk fangelsisdóm

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lionel Messi við uppkvaðningu dómsins í morgun.
Lionel Messi við uppkvaðningu dómsins í morgun. vísir/getty
Argentínski knattspyrnumaðurinn Lionel Messi hefur ásamt föður sínum verið dæmdur í 21 mánaðar fangelsi fyrir brot á skattalögum á Spáni.

Hann þarf þó ekki að afplána dóminn innan veggja fangelsis samkvæmt lögum á Spáni. Það mun vera af þeirri ástæðu að dómurinn er styttri en tvö ár. Reuters greinir frá því að hægt sé að áfrýja dómnum til Hæstaréttar.

Knattspyrnumaðurinn 29 ára, sem margir telja þann besta í heimi, var sakfelldur fyrir að hafa stofnað fjölda gervifyrirtækja í Belís og Úrúgvæ til að komast hjá því að fjármunir hans yrðu skattlagðir. 

Sagðist treysta föður sínum

Um er að ræða rúmlega fjórar milljónir evra, andvirði um 550 milljóna íslenskra króna á gengi dagsins í dag, en tekjurnar voru tilkomnar vegna myndréttar. Um er að ræða brotabrot af heildartekjum knattspyrnumannsins en tekjurnar eru frá árabilinu 2007 og 2009.

Messi hefur í réttarhöldunum sagst ekki hafa vitað nokkurn skapaðan hlut um það hvernig fjármunum hans sé varið. 

„Ég var að spila fótbolta. Ég hafði enga hugmynd um neitt. Ég treysti föður mínum og lögfræðingum mínum.“

Messi sagðist sömuleiðis aldrei hafa grunað föður sinn um neitt misjafnt þegar hann var beðinn um að skrifa undir samninga og skjöl er vörðuðu réttinn á myndefni af Messi. Faðir hans, Jorge Messi, ítrekaði hið sama fyrir dómi.

„Ég taldi ekki nauðsynlegt að upplýsa hann um allt saman.“

 


Tengdar fréttir

Messi segist saklaus

Barcelona brást illa við fréttum af skattamáli Messi-feðganna á Spáni.

Ákærur gegn Messi niðurfelldar

Skattayfirvöld á Spáni hafa beðið saksóknara um að fella niður ákærur gegn Lionel Messi, leikmanni Barcelona.

Vilja fá Neymar fyrir rétt

Ríkissaksóknaraembætti Spánar vill draga brasilísku fótboltastjörnuna Neymar fyrir rétt vegna meintra fjársvika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×