Fótbolti

Stoðsending Arons Elísar dugði ekki til

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Elís lagði upp mark en það dugði skammt.
Aron Elís lagði upp mark en það dugði skammt. vísir/ernir
Unglingalandsliðsmennirnir Aron Elís Þrándarson og Adam Örn Arnarson voru báðir í byrjunarliði Aalesund sem beið lægri hlut fyrir Strømsgodset, 4-2, í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Aalesund er í 12. sæti deildarinnar með 12 stig eftir 14 umferðir en Strømsgodset í því þriðja með 26 stig, sjö stigum á eftir toppliði Rosenborg.

Fyrri hálfleikur var mjög fjörugur en eftir 34. mínútna leik var staðan orðin 2-2.

Mostafa Abdellaoue kom Aalesund yfir strax á 5. mínútu en Muhamed Keita jafnaði metin tólf mínútum síðar. Mikkel Kirkeskov varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 26. mínútu.

Aalesund átti hins vegar síðasta orðið í fyrri hálfleik þegar Peter Orry Larsen skoraði eftir sendingu Arons Elísar. Þetta var önnur stoðsending Víkingsins á tímabilinu.

Í seinni hálfleik reyndust leikmenn Strømsgodset svo sterkari og tryggðu sér sigurinn með mörkum frá Lars Vilsvik og Flamur Kastrati.

Aron Elís lék allan leikinn en Adam Örn fór af velli á 85. mínútu. Í hans stað kom Grindvíkingurinn Daníel Leó Grétarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×