Skoðun

Framtíð almenningssamgangna

Bryndís Haralds skrifar
Almenningssamgöngur verða sífellt mikilvægari hluti af höfuðborgarsvæðinu. Íbúum á svæðinu fjölgar, sprenging er í fjölda ferðamanna og aukin umhvefisvitund gerir það að verkum að fyrirtækið Strætó bs. er eitt af mikilvægustu þjónustufyrirtækjum í almannaþágu.

Höfuðborgarsvæðið stendur á ákveðnum krossgötum varðandi þróun byggðar. Á síðustu áratugum hefur höfuðborgarsvæðið þanist út og uppbygging ekki tekið mið af því hvernig hægt er með hagkvæmum hætti að veita þjónustu á sviði almenningssamgangna. Bílaumferð hefur vaxið mikið en afkastageta vegakerfisins ekki aukist í sama magni. Þrátt fyrir tillögur sveitarfélaganna um miklar framkvæmdir til að bæta afkastagetu vegakerfisins þá mun það ekki duga til ef ekki verður breyting á samgöngumátum höfuðborgarbúa á sama tíma. Nýtt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins markar samkomulag sveitarfélaganna um breyttar áherslur. Byggð mun ekki þenjast meira út, þéttleiki verður aukinn og öflugum almenningssamgöngum er markað lykilhlutverk í þróun svæðisins.

Yfir 10 milljónir á ári

Farþegum Strætó hefur fjölgað jafnt og þétt á síðustu árum og nú eru farþegar yfir 10 milljónir á ári hverju. Farþegum mun halda áfram að fjölga og það umtalsvert enda hafa sveitarfélögin, eigendur Strætó bs., sett sér það markmið að auka hlutfall þeirra sem nota almenningssamgöngur. Í dag eru rúmlega 4% allra ferða á svæðinu farnar með strætó en markmiðið er að árið 2040 verði þetta hlutfall orðið a.m.k. 12%.

Þetta þýðir að skipulag og uppbygging á svæðinu þarf að taka mið af því hvort þar verði öflugar og góðar almenningssamgöngur eða ekki. Æskilegt er að verslun og þjónusta sé ávallt í góðum tengslum við almenningssamgöngur og almennt ættu fyrirtæki að horfa til þess þegar þau velja sér staðsetningu hvort almenningssamgöngur á svæðinu séu góðar. Fólk sem kýs að nýta sér almenningssamgöngur ætti einnig að huga að því þegar það velur sér búsetu hvernig þjónustu strætó er háttað í hverfinu. Þjónustan er almennt betri þar sem þéttleiki er meiri.

Strætó bs. leggur áherslu á að veita hagkvæma og góða þjónustu sem getur verið samkeppnishæf við einkabílinn, þar sem því verður við komið. Þar sem byggðin er dreifðari verður erfiðara að bjóða upp á þjónustu sem stenst samkeppni við einkabílinn. Þjónusta strætó verður aldrei eins eða jafn góð alls staðar, það væri einfaldlega óraunhæf krafa.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Á­kall um kjark

Guðbjörg Pálsdóttir,Kolbrún Halldórsdóttir,Steinunn Þórðardóttir,Svana Helen Björnsdóttir skrifar

Sjá meira


×