Enski boltinn

Zlatan svarar Cantona: Ég verð ekki kóngur heldur guð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic og Eric Cantona.
Zlatan Ibrahimovic og Eric Cantona. Vísir/Getty og EPA
Svíinn Zlatan Ibrahimovic hefur aldrei átt í miklum vandræðum með að tala vel um sig og sín afrek. Það mun örugglega ekkert breytast þótt að hann sé orðinn leikmaður Manchester United í ensku úrvalsdeildinni.

Zlatan Ibrahimovic sá ástæðu til ess að senda Eric Cantona smá skilaboð. Eric Cantona bauð Zlatan velkominn til Manchester United á dögunum en varaði hann jafnframt við því að Svíinn gæti aldrei orðið kóngurinn í Manchester og yrði bara að sætta sig að vera prinsinn. Cantona á nefnilega kóngatitilinn um ókomna tíð.

Eric Cantona átti mögnuð tímabil með Manchester United og fékk viðurnefnið „Kóngurinn" fyrir að vera alltaf bestur þegar mest á reyndi. Zlatan Ibrahimovic ætlar hinsvegar ekki að keppa við Frakkann um það nafn.

„Ég ber virðingu fyrir Cantona og ég heyrði það sem hann sagði. Ég verð ekki kóngurinn af Manchester því ég verið guð í Manchester," sagði Zlatan Ibrahimovic í viðtali við hið sænska Aftonbladet.

Eric Cantona skoraði 82 mörk í 185 leikjum á fjórum og hálfu ári sínu sem leikmaður Manchester United en hann varð fjórum sinnum Englandsmeistari og tvisvar bikarmeistari með United frá 1993 til 1997.

Zlatan Ibrahimovic er kominn úr fríinu sínu eftir EM í Frakklandi og mun hefja æfingar með Manchester United  í vikunni. Það er aftur á móti ekki vitað hvenær Zlatan spilar fyrsta leikinn með United-liðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×